LAust4: Æskan á Seyðisfirði, séð með augum afa

Árbjörn Magnússon ólst upp á Seyðisfirði á árunum 1943 til 1955. Hann segir hér frá dögum sínum sem ungur polli á Seyðisfirði.

Árbirni fannst gott að alast upp á Seyðisfirði og segist hann hafa eytt flestum dögum sínum í að leika allskyns leiki utandyra með félögum sínum, svo sem fótbolta og slábolta. Oftar en ekki var slábolti spilaður á leirunni niðri í fjöru þegar fjara var. Þá safnaðist saman aragrúi af börnum á öllum aldri og léku sér saman. Á kvöldin var sérstaklega mikið stuð og var sláboltinn spilaður langt fram eftir kvöldi.

Árbjörn segir margar af sínum uppáhalds minningum vera frá því þegar hann og félagar hans léku sér með heimagerða vörubíla og gerðu vegi upp brekkurnar og á túnunum fyrir ofan heimili hans. Á bryggjunum eyddi Árbjörn miklum tíma við veiðar og var það ósjaldan sem hann féll í sjóinn og kom gegnvotur heim. Árbjörn æfði sund af kappi og var það Óli Óla íþróttakennari sem kenndi honum íþróttina. Árbjörn segir að Óli hafi lagt mikla áherslu á að allir æfðu sund, sem vildu og gætu.

Á þeim dögum þegar ekki var hægt að gera eins margt og í dag segir Árbjörn að mikið hafi verið um spil og lestur, en tekur samt fram að það hafi þurft að vera mjög slæmt veður til þess að þeir væru ekki úti að leika sér. Bækur eftir Ármann Kr. Einarsson voru mikið lesnar og einnig segir Árbjörn Ævintýrabækurnar hafa verið mjög vinsælar. Margir tefldu þó að hann hafi ekki haft mikinn áhuga á því.

Eins og víða tíðkast á gamlársdag voru kveiktar brennur til þess að kveðja gamla árið. Þegar komið var fram í nóvember var farið að safna efni í þær þrjár brennur sem hafðar voru í bænum. Mikil samkeppni var á milli barnana í bænum því að sjálfsögðu vildu allir hafa  brennuna í sínu hverfi sem stærsta. Ein brennan var höfð niðri á Öldu, rétt við heimilli Árbjörns, önnur brennan var höfð í miðbænum og sú þriðja var staðsett í útbænum. Kveikt var í brennunum rúmlega ellefu svo að þær væru í hámarki á miðnætti.

Árbjörn var uppátækjasamur drengur og hafði móðir hans, Geirrún Þorsteinsdóttir, orð á því að það væri ótrúlegt að hann skyldi yfir höfuð vera á lífi. Sem dæmi um eitt af uppátækjum Árbjörns var þegar hann og nokkrir félagar komu saman á gamlárskvöld, hver með sína rakettuna. Félagar Árbjörns skutu sínum rakettum upp en þegar loksins var komið að Árbirni að skjóta upp gekk það illa sökum gjólu. Á endanum náði hann að kveikja í rakettunni en ekki vildi betur til en svo að þráðurinn brann á ógnarhraða og endaði rakettan í hettu Árbjörns. Sem betur fer slapp hann með skrámur en nánast augabrúnalaus og með skallablett. Þetta fannst Árbirni ekki mikill missir því hann hafði meiri áhyggjur af fínu, nýju skólaúlpunni sinni sem þótti mikill fjársjóður því ekki voru svona úlpur á hverju strái í þá daga.

Af þessari frásögn Árbjörns má sjá að gott hafi verið að alast upp á Seyðisfirði á árunum eftir stríð og mikið fjör hjá krökkum þess tíma eins og nú, 65 árum síðar.

 

Austurfrétt birtir næstu vikur sýnishorn úr verkum sem verða til hjá þeim sem sinna skapandi sumarstörfum á vegum Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar undir merkjum LAust. Bryndís Tinna Hugadóttir, barnabarn Árbjörns, er 17 ára gömul myndlistarkona frá Eskifirði. Pistillinn var skrifaður fyrir 28. tbl. Austurgluggans, sem var tileinkað 125 ára afmæli Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.