Ætlum við að halda áfram að setja kíkinn fyrir blinda augað?

Nokkrar fréttir í síðustu viku slógu okkur utanundir: Fyrsta frétt: „Ungum konum fjölgar á örorku“: Nýúrskurðaðir öryrkjar voru fimmtungi fleiri í fyrra en árið á undan. Hlutfallsleg aukning hjá ungum konum er 60 af hundraði. Stór hluti þessarar aukningar er andleg örorka. Önnur frétt: „Ungt fólk á Íslandi þunglyndast allra“: Ungt fólk á Íslandi finnur mun oftar fyrir þunlyndiseinkennum en ungt fólk hjá öðrum þjóðum Evrópu.


Tæplega 18% kvenna á aldrinum 15-24 ára finnur fyrir þunglyndi, en meðaltal í Evrópusambandinu eru 6,7%. Þriðja frétt: „Mikil aukning í ávísunum þunglyndislyfja á undanförnum árum“. Fjöldi þeirra sem nota þunglyndislyf jókst um 21,7% síðustu fjögur árin. Hjá yngri notendum á aldrinum 15-19 ára er fjölgunin 62,2%. Um 14,5% þjóðarinnar notar lyf við þunglyndi.

Þessar fréttir benda til þess að staðan í geðheilbrigðismálum sé grafalvarleg. Mjög mörgum líður augljóslega mjög illa og þróunin hjá yngra fólkinu, sérstaklega konum, er mikið áhyggjuefni. Við myndum hreinlega ganga svo langt að segja að þetta sé neyðarástand. Við sem samfélag þurfum að spyrja okkur mjög alvarlegra spurninga um orsakir og mögulegar lausnir. Alltént þurfum við að setja alvöru peninga í þennan málaflokk, sem er óskiljanlega fjársveltur. Vandaðar skýrslur hafa verið skrifaðar um aðgerðir til að stemma stigu við aukningu geðræns vanda, en þær liggja rykfallnar í skúffum Velferðarráðuneytisins. Það þarf ekki fleiri starfshópa, nefndir eða skýrslur þó að sjálfsögðu þurfi að vanda til verka. Fyrst og fremst þarf tafarlausar aðgerðir. Og það er öllum augljóst sem eitthvað hafa milli eyrna að aðgerðir í geðheilbrigðismálum borga sig. Fyrir utan þær þjáningar og skerðingu á lífsgæðum sem geðsjúkdómar valda, þá valda þeir líka gífurlegum kostnaði í heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu, skólakerfinu og réttarkerfinu, auk þess sem geðsjúkdómar geta stórlega skert getu fólks til að leggja sitt af mörkum á vinnumarkaði og í samfélaginu almennt. Samkvæmt grein í læknisfræðitímaritinu Lancet frá því í fyrra kæmi hver króna sem fjárfest er í geðheilbrigði að minnsta kosti fjórum sinnum til baka og allt að því sjö sinnum (Chisholm o.fl (2016): „Scaling-up treatment of depression and anxiety: a global return on investment analysis“ The Lancet). Það er vandfundin mannúðlegri eða ábátasamari samfélagsleg fjárfesting.


Niðurstaða: Það ríkir neyðarástand í geðheilbrigðismálum sem virðist fara hratt versnandi. Talsverður hlutir þjóðarinnar þjáist af völdum geðsjúkdóma sem má fyrirbyggja eða meðhöndla miklu betur en nú er gert. Það skilar beinum fjárhagslegum ávinningi að gera eitthvað í þessu. Eigum við ekki að bretta upp ermar og gera eitthvað í þessu? Eða ætlum við bara að hafa kíkinn fyrir blinda auganu?

Orri Smárason, sálfræðingur og Sigurður Ólafsson, ráðgjafi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.