Af austfirskum samgöngumálum

Samgöngumál eru einhver umdeildustu mál alltaf og allsstaðar og ekki vegna þess að allir vilji ekki hafa þær sem skástar heldur vegna þess að við höfum tilhneigingu til að óska eftir því að annað fólk hafi það ekki.

Nú vill svo til að ég er orðinn „verseraður“ í samgöngum í þessum fjórðungi af tveim ástæðum einkum; önnur sú að ég hef búið á þrem stöðum, hin að ég er búinn að vera í vinnu á enn fleirum og á öllum tímum árs.

Ég er sem sagt ráðinn í að hafa skoðun á málinu og gott betur; ég ætla að viðra hana. Ég er ekki á leiðinni að fara neitt pent í álitið og segi það fullum fetum að hugmyndir um að byggja heilsársveg í og yfir 600 metrum eru galnar. Undir Breiðdalsheiði og Berufjarðarskarð væri hins vegar möguleiki að stinga.

Raunar er það nokkuð sem ég óska mér allra helst og það sem fyrst. Ég vil fyrir mig hafa meiri frið í þorpinu á Stöðvarfirði, fyrir alla muni. Þarna lýkur persónulegum hagsmunum mínum. Ég er sem sé til í að fórna þeim og upplifa ekki þá minnkun á umferð sem endurbætur á línuveginum yfir Öxi færir mér móti þeirri töf sem yrði á göngum og mér dettur ekki í hug að verði grafin að mér lifandi.

Af fenginni reynslu af ótímabærum umferðarmannvirkjum í auglýsingaskyni er komið nóg hér eystra. Okkar fyrstu göng, sem hefðu auðvitað átt að vera milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar komu um árið undir Oddskarðið og bara sem hvati til að halda opnum veginum allt árið. Það mátti t.d. ekki gera á honum breytingar í mörg ár vegna þess að „það áttu að koma göng“. Um legu vegarins Eskifjarðarmegin er svo það að segja að mig furðar enn hvað fá slys urðu af legu hans niður í þorpið á Eskifirði. Undir hvað er eiginlega hægt að flokka þessa legu?

Ég á mér að vísu kenningu varðandi vegalagningu yfir Fagradalinn þar sem verið var að leggja vegi frá því ég man fyrst, og það á sama tíma og enginn tími virtist til að laga veginn út með Reyðarfirði. Þessi kenning gengur út á það að frá höfuðstöðvum vegagerðarinnar hafi menn helst viljað gera út og ekki fara lengra en svo að þeir kæmust heim í mat og kaffi. Ég hef reynt að segja vinum mínum á Reyðarfirði að það sé óþarfi að fyrtast við, þetta sé augljóst heilkenni og hvergi meira áberandi en á höfuðborgarsvæðinu og magnaðra eftir því sem nær dregur því sem kallað hefur verið Kvosin.

Svo magnað er þetta fyrirbæri að helsta stuðningsfólk þess að hafa nú flugvöll þarna eins og allt annað, er fyrir utan tómstundaflugmenn, ráðamenn á landsbyggðinni, fólk sem að vísu finnst að það borgi nú alveg nóg fyrir að nota þennan völl. Ég stenst heldur ekki að taka til vinsælustu rökin utan af landi. Sjúkraflug. Ef við byggjum yfir fólk í Vatnsmýrinni verður þar fleira en á þeim stöðum sem geta flogið fólki beint á völlinn.

Staðreyndin í umferðarmálum er sú að því meiri sem umferðin er, þess fleiri slys. Ég hafna líka algerlega því sjónarmiði sem færir þungann í gegnum sem flesta þéttbýliskjarna, sem „viti borinni“ hugsun.

Allir sem vilja, skynja að það að ferja Færeyinga fór til Seyðisfjarðar en ekki Reyðarfjarðar var að þá þyrftu farþegar að fara framhjá að minnsta kosti tveim sjoppum á vegum KHB og stundum nálgast þá þriðju. Ég verð að játa að mér fannst flott hjá þeim að fara á Seyðisfjörð. Það er skemmtilegra að mörgu leiti að sigla inn hann og Fjarðarheiðin er ævintýri; þetta var jú einu sinni bara ferðamanna sigling á sumrin.

Núna eru á ferðinni flutningar allan ársins hring og þar sem ekki hefur tekist að koma ferskum fiski fljúgandi frá Egilsstöðum liggur beinast við að koma honum af fjörðunum um Seyðisfjörð og til þess henta göng frá Norðfirði um Mjóafjörð einkar vel. Þótt grafið verði frá Seyðisfirði og til Héraðs á ég afskaplega erfitt með að sjá hentugleika þess; umfram það að fara yfir heiðina. Þetta er nú einfaldlega vegna þess að Seyðfirðingur kominn í Héraðið er bara innilokaður af fjallvegum eins og Fjarðarheiðinni. Syðst er auðvitað Öxi, svo Breiðdalsheiði og þá Fagridalurinn og Vatnsskarðið, og Hellisheiðin og loks Möðrudalsöræfin. Fyrir þá sem eru ekki enn búnir að sjá það að í Egilsstaði er fólk bara að sækja í Bónus, jú og svo flugvöllinn auðvita, ætla ég bara að rifja það upp hvernig þeim hefur haldist á hlutunum þarna á einu fallegasta landbúnaðarhéraði landsins. Sláturhúsið farið, mjólkurstöðin að mestu, Vonarland farið, Eiðaskóli farinn, Hallormsstaðaskóli árlegt spurningarmerki.

En, þarna er enn ME og ég bind vonir við að þeim skóla takist að koma nemum sínum til þess þroska sem Gauti Skúlason er að óska þeim, og okkur öllum, og að við gerum Austurland að einu sveitarfélagi.

Krummi í Rjóðri,
örlítið eldri Austfirðingur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar