Af hverju óháðir?

Fimmtudaginn 19. apríl sl. var listi Sjálfstæðisflokksins og óháðra á Fljótsdalshéraði samþykktur. Listann leiða reynslumiklir forystumenn sveitarfélagsins og að baki þeim er sérstaklega öflugur hópur fólks sem að miklu leyti hefur ekki áður komið að framboðsmálum á sveitarstjórnarstiginu.

Á aðalfundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna fyrr á árinu var skipuð nefnd til að koma með tillögu að tilhögun lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í næsta mánuði. Í nefndina völdust einstaklingar sem höfðu verið virk í starfi flokksins síðustu misseri en einnig aðili sem hafði verið óvirkur um alllangt skeið. Í nefndina völdumst við, sem ritum grein þessa.

Nefndin var strax sammála um að verkefni hennar væri að finna leið til að setja fram lista sem væri líklegur til að ráða við þau meginverkefni sem nefndin taldi blasa við:

1) Að efla ásýnd sveitarfélagsins út á við og 2) að skapa og nýta þau miklu tækifæri sem þetta einstaka sveitarfélag býr yfir.

Við vorum sammála um að sveitarfélagið þarf sterka forystu. Viðfangsefnið nálguðumst við með mjög opnum hug.

Eftir samtöl við fjölmarga aðila urðum við þess áskynja að oddviti listans, Anna Alexandersdóttir forseti bæjarstjórnar naut mjög mikils stuðnings þeirra sem að starfinu höfðu komið. Einnig fundum við að stuðningur við Önnu náði langt út fyrir raðir Sjálfstæðismanna. Það var því auðveld ákvörðun að leggja til að Anna yrði í efsta sæti.

Gunnar Jónsson skipar 2. sæti listans. Gunnar er klárlega einn öflugasti sveitarstjórnarmaður Fljótsdalshéraðs síðustu 8 ár. Hann hefur verið leiðtogi sveitarfélagsins í mörgum málum, gefið mikið af sér í starfi og sýnt með verkum sínum, að hann getur verið fastur fyrir, en einnig að hann eigi gott að vinna með fólki og taka málefnalega umræðu. Þeir Sjálfstæðismenn sem starfað hafa í meirihluta með Gunnari síðustu fjögur ár báru honum vel söguna. Þar á milli ríktu heilindi, þó ekki væru menn alltaf sammála. Gunnar er auðvitað umdeildur maður og návígi atvinnurekstrar hans við þéttbýlið getur skapað togstreitu, en líka tækifæri. Við skoðun, og við skoðuðum málið, áttuðum við okkur á því að ef við fengjum Gunnar til liðs við listann, væri það hvalreki miðað við þau markmið okkar að mynda öfluga forystu í sveitarfélaginu sem gætti hagsmuna þess af festu. Gunnar var einn þeirra sem lagði áherslu á að hafa óháða með okkur, enda sótt mikinn stuðning þvert á flokka.

Í þriðja sætið valdist ung, vel menntuð og orkumikil kona, Berglind Harpa Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur með meiru. Berglind Harpa nýtur sérstakrar og eftirtektarverðrar velvildar skjólstæðinga hennar, þ.e. þeirra sem leitað hafa til hennar sem starfsmanns Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Berglind og hennar maður hafa einnig verið farsæl í ferðaþjónusturekstri sínum, þó þau hafi nýlega ákveðið að hætta þeirri starfsemi. Berglind hefur tíma til að gefa sig að þessu mikla starfi, sem þátttaka í sveitarstjórnarmálum er, og hefur sérstaklega mikinn áhuga á að láta rödd sína heyrast og koma að eflingu samfélagsins. Berglind hefur verið flokksbundinn Sjálfstæðismaður um langt skeið.
Karl Lauritzson hefur lengi starfað að sveitarstjórnarmálum hjá flokknum. Hann er vinnusamur, stefnufastur og kynnir sér málefni vel. Afar vel. Hann hefur verið starfinu gríðarlega mikils virði og við lögðum á það áherslu að hans nyti áfram í ríkum mæli. Karl var í fyrstu í nefnd þeirri sem skilaði tillögu að listanum, en sagði sig frá öllum störfum þar tæpum tveimur vikum áður en endanleg tillaga var lögð fram, eftir að ábendingar þar um komu fram í spjalli Sjálfstæðismanna á fundi um stöðu mála.

Sigrún Hólm Þórleifsdóttir kemur ný inn í starfið í 5. sæti, sem fulltrúi óháðra. En hún er ekki flokksbundin annars staðar, svo því sé haldið til haga. Ekki frekar en aðrir óháðir á listanum. Sigrún Hólm hefur komið sem ferskur blær í samfélag okkar síðustu ár, staðið í forystu á stórum vinnustað í ferðaþjónustu og verið virkur þátttakandi í stefnumótun og framtíðarsýn þjónustusamfélagsins.

Sigurður Gunnarsson er einnig nýr á listanum í 6. sæti. Hann er gríðarlega áhugasamur, metnaðargjarn og með skýra framtíðarsýn fyrir samfélagið. Sigurður hefur þegar sýnt það með framgöngu sinni, að þar fer heilsteyptur maður sem vill láta til sín taka. Hann stígur nú fram í fyrsta sinn á lista fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Fljótsdalshéraði, en við erum viss um að hann eigi eftir að vaxa af verkum sínum. Hann hefur í raun þegar gert það.

Davíð Þór Sigurðarson tekur nú 7. sæti listans eftir að hafa verið neðar síðast. Davíð var formaður fræðslunefndar sveitarfélagsins en er líklega þekktastur fyrir óeigingjarnt starf sitt sem formaður íþróttafélagsins Hattar. Við erum honum þakklát fyrir að hafa áfram gefið kost á sér, þrátt fyrir miklar annir. Frábær liðsmaður, góður félagi, réttsýnn og vinnusamur.

Ívar Karl Hafliðason er í 8. sæti. Hann er einn þeirra þriggja á listanum sem ekki eru flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Ívar kemur inn með ferskan blæ og vill skilja það sem að baki er og hafa áhrif á það sem framundan er. Glaður en enginn jámaður. Beinskeyttur, en fagnar rökræðu. Ívar kemur sterkur inn í hópinn hjá okkur og mun hafa mikil áhrif með störfum sínum.

Eyrún Arnardóttir í 9. sæti er sú þriðja óháða á listanum. Eyrún hefur áður setið í bæjarstjórn og hefur sannað með störfum sínum þar, og sem dýralæknir, að þar fer öflugur einstaklingur sem stendur með skoðunum sínum og vill hreinskiptin skoðanaskipti. Það hefur eðlilega vakið mikla athygli að Eyrún skuli hafa tekið sæti á listanum hjá okkur. Verðskuldaða athygli. Sem segir allt sem segja þarf um hana og um listann hjá okkur.

Svona væri hægt að fara í gegnum allan listann, en hér skal látið nægja að fjalla um helming hans. Við finnum það hins vegar strax að þau sem skipa neðri helming hans – sem öll eru flokksbundnir Sjálfstæðismenn, þó misjafnt sé hve mikið þau hafi starfað innan hans síðustu ár – koma inn af krafti og eru okkur mjög dýrmætir liðsmenn. Eins og þeir sem utan listans standa en starfa með framboðinu.

Við spurðum hér í upphafi af hverju óháðir? Fyrir því eru a.m.k. þrjár góðar ástæður.

Í fyrsta lagi þá njóta forystumenn listans mikils stuðnings út fyrir raðir Sjálfstæðismanna. Þó við séum Sjálfstæðismenn, þá deilum við þeirri skoðun að þessi vettvangur, sveitarstjórnarmálin, snúast fyrst og fremst um að vera samfélagi okkar að gagni. Sveitarfélaginu okkar og nærsamfélagi. Austurlandi. Við viljum vinna með öðrum framboðum í sveitarfélaginu að góðum málum. Við viljum vinna með öðrum sveitarfélögum að góðum málum. Við viljum hafa áhrif á ákvarðanir og við viljum tryggja framkvæmdir.

Í öðru lagi þá höfum við fengið fólk á listann sem gríðarlegur fengur er í, þó það vilji ekki vera flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Fólk sem getur hjálpað okkur að ná markmiðum okkar. Fólk sem vill vinna með okkur. Þá eru flokksskírteini ekki það sem skiptir máli að okkar mati.

Í þriðja lagi, og þetta er líka mikilvægt, þá höfum við orðið vör við það í samtölum okkar við öflugt, reynslumikið og efnilegt fólk sem hér býr, að það vill starfa í málefnastarfinu með okkur. Þó það vilji ekki vera á lista. Og að það er auðveldara fyrir það að koma að slíku málefnastarfi, ef framboðið er einnig kennt við óháða. Hér er ekki eingöngu verið að ræða um málefnastarf næstu vikna, heldur næstu fjögurra ára.

Við erum því stolt af listanum okkar. Eðlilega voru skiptar skoðanir. Eðlilega voru athugasemdir við það hvernig við unnum okkar verk, og við hefðum örugglega getað gert suma hluti betur. Við bjóðum athugasemdir velkomnar. Af því að fólk er áhugasamt og af því að fólk hefur metnað, ýmist fyrir sína hönd, annarra frambjóðenda eða málefna sem skipta viðkomandi máli.

Það er eðli stjórnmálastarfs.

Nú er það undir listanum að koma fram með málefnaskrá sína og framtíðarsýn. Við treystum á að þá muni íbúar Fljótsdalshéraðs sjá að listi Sjálfstæðisflokksins og óháðra er valkostur fyrir þá sem vilja öfluga forystu, nýtingu tækifæra, skýra framtíðarsýn og raunhæfa og skynsama fjármálastefnu. Sem vilja byggja á þeirri dýrmætu staðreynd, að á Fljótsdalshéraði vill fólk búa. Sem vill nýta þau tækifæri sem felast í sérstöðu Austurlands.

Guðrún Ragna Einarsdóttir,
Hilmar Gunnlaugsson,
Sigríður Sigmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar