Af munna Fjarðarheiðarganga

Í liðinni viku var frétt í Ríkisútvarpinu um að öðrum áfanga í jarðfræðirannsóknum, sem hófust nú í sumar, vegna Fjarðarheiðarganga væri lokið. Það er gleðiefni að þetta verk skuli vera komið á rekspöl og vonandi að ekki verði frekari tafir á og menn haldi ótrauðir áfram við þessa mikilvægu samgöngubót.


Í fréttinni er haft eftir Gísli Eiríkssyni, yfirmanni jarðganga hjá Vegagerðinni, að Héraðsmegin koma tveir staðir til greina fyrir gangamunna, annarsvegar rétt sunnan við uppgönguna að Fardagafossi og hinsvegar við Dalhús á Eyvindardal. Gísli segir lengd ganganna nánast þá sömu að báðum stöðum og vegalengdin frá þessum stöðum inn í miðbæ Egilsstaða sé nákvæmlega sú sama.

Ég hef leyft mér , þó leikmaður sé, en um leið mjög áhugasamur um þessa framkvæmd og gamall Austfirðingur, að benda Vegagerðinni á þriðja mögulega gangnamunna sem þá kæmi út á móts við Flatirnar á Eyvindardal.

Með því fæst tiltölulega einfaldari og um leið kostnaðarminni vegtenging við þjóðveg, m.a. brúargerð yfir Eyvindará, en við Dalhús. Í annan stað tel ég að hugsanlega séu betri jarðlög og minni hætta á vatnsleka með því að fara sem næst undir hábungu Gagnheiðar.

Göngin verða álíka löng eins og við hinar leiðirnar tvær, vegalengd styttist lítillega til Reyðarfjarðar, miðað við op við Dalhús, en lengist auðvitað að sama skapi upp í Egilsstaði. Það getur varla verið frágangssök.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar