Af skíðasvæðum og gossvæðum
Páskarnir: Við erum saman í þessu. Við erum almannavarnir. Skíðasvæði landsins lokuð. Þúsundir ganga um í Geldingardal.Öll skíðasvæði landsins eru nú lokuð. Það er liður í sóttvörnum þar sem allir eiga að hjálpast að og standa saman í baráttunni við veirufjandann. Páskarnir eru sá tími vertíðarinnar sem færir skíðasvæðunum alla jafnan mestu tekjurnar. Sumum allt að 60%. Þau voru búin að leggja mikla vinnu og undirbúning til að taka vel á móti sínum gestum þó að vissar takmarkanir væru þá í gangi.
Öll skíðasvæðin nema tvö eru utan höfuðborgarsvæðisins. Korteri fyrir páska komu nýjar sóttvarnarreglur sem lokaði öllum skíðasvæðum. Lok, lok og læs! Auðvitað erum við öll í þessu saman. Við erum almannavarnir sögðu skíðasvæðin hlýddu og lokuðu. Öll umferð stranglega bönnuð.
Skömmu fyrir páska fer að gjósa í Geldingardal á Reykjanesi. Vissulega mikið sjónarspil en alls ekki hættulaust. Því fylgir mikil óvissa um alla hegðan og framvindu fyrir allt nærumhverfið. Þá bregður svo við að fræðimenn og aðrir sem upplýsa landsmenn reglulega og vel um ástandið hvetja til þess að allt verði gert til að sem flestir geti litið ægifagurt sjónarspilið augum og helst LIVE á staðnum.
Björgunarsveitir örþreyttar voru kallaðar til gæslu og gönguleiðir sérmerktar til að auðvelda aðgengi gangandi. Áréttað var sérstaklega að mikil hætta gæti verið á ferðum og fólk beðið að fara með gát en ítrekað að nota tækifærið, fara og sjá ægifagurt sjónarspilið. Stillimynd í sjónvarpi landsmanna er streymt allan sólahringinn beint frá gosstöðvunum. Allir fréttatímar, sem áður voru rauðglóandi af veirufréttum, breyttust í glóandi beinar fréttir frá Geldingardal. Þar var aldeilis ekki lok, lok og læs.
Gríman felld og samhjálpin að verjast veiru fjandanum fokin út í veður og vind og nú með blessun og hjálp hins opinbera. Almannavarnirnar allar á bak og burt í beinni útsendingu. Í einum fréttatíma sagði að 5 þúsund manns hafi sótt sjónarspilið einn daginn. Getur það verið?
Einn fúll á móti.