Af vindorku og verdensfrelsurum
Þau er mörg fárin sem hrjá heiminn. Þegar kovidfaraldurinn er loks í rénum tekur við stríð í Evrópu. Loftslagsvandinn er óleystur og orkukreppa sömuleiðis. Allt virðist vera tilvinnandi til að leysa þá síðastnefndu.Við íbúar Austurlands, sem færðum miklar fórnir á náttúrugæðum okkar fagra lands, framleiðum fyrir vikið einna mesta hreinu orku á hvert mannsbarn sem um getur á heimsvísu. En nú telst ekki nóg að gert. Enn eru stórkostlegar áætlanir um eyðileggingu ósnortinnar náttúru hér sem og vítt og breitt um Ísland. Allt er þetta undir hatti grænna orkuskipta.
Meðfylgjandi mynd er sett saman úr sýnileika vindorkuveranna sem áformuð eru á Mið-Austurlandi, þ.e. hversu langt að þau sjást á landi. Skyggðu svæðin eru rauðbrún fyrir orkuverið við Lagarfoss og í Fljótsdal (Víðivallahálsi/Flatarheiði) og blátt fyrir orkuverið á Klaustursselsheiði.
Þessi mynd talar sínu máli. Vindmyllur verða sýnilegar um mestallt Fljótsdalshérað nánast hvert sem litið er. Er þetta framtíðin sem menn vilja sjá fyrir íbúana, börnin sín og næstu kynslóðir?
Hér er ekki verið að leysa neinn orkuvanda okkar hér. Um er að ræða erlend stórfyrirtæki, að Lagarfossvindmyllum undanskildum, sem seilast eftir náttúruauðlindum í gróðaskyni annað hvort með raforkuútflutningi um sæstreng eða framleiðslu á vetni/ammoníaki í efnaverksmiðjum og þá til útflutnings. Við megum ekki gleyma því að 80% af raforku okkar fer óbeint til útflutnings nú þegar með framleiðslu áls. Það þætti ærinn skerfur í öðrum löndum sem framlag til orkuskipta.
Vindmyllufárið er aðeins framhald af ásækni alþjóðlegs fjármagns sem virðir engin landamæri, ferðast skattlaust milli landa og nýtir sér lagaglufur og innlenda landsölumenn til að komast í auðlindir án þess að borga neitt fyrir þær. Ísland er sennilega eitt ríkja í Norður Evrópu þar sem þunn eiginfjármögnun er látin viðgangast þannig að erlend fyrirtæki með starfsemi hér greiða engan tekjuskatt af starfsemi sinni. Gjöld á starfsemi norsks laxeldis hér eru nánast engin svo dæmi sé tekið og sveitarfélög hafa sama sem engar tekjur af þeim nema útsvar af starfsmönnum. Vindmyllur eru ekki stofn til fasteignagjalda nema að mjög takmörkuðu leyti og tekjur samfélaganna því óverulegar af þessum risamannvirkjum.
Það er því engin ástæða til að ætla að þessu verði öðruvísi háttað með vindorkuverin en fyrrnefndar erlendar atvinnugreinar. Samfélagið situr þá uppi með hvort tveggja í senn, stórkostleg náttúruspjöll og síðan engar tekjur til að kosta samfélagsrekstur eins og heilbrigðisþjónustu, samgöngubætur o.fl. Í ofanálag fáum við örplastmengun, sjónmengun og margfalt orkuverð í boði einkavæddrar útlendrar orkusölu.
Það er kallað Win-Win í ensku máli þegar viðskipti eru báðum aðilum hagstæð. Hin fyrirhuguðu áform vindorkufurstanna eru hins vegar öll því marki brennd, að þeir öðlast allan vinninginn en heimamenn sitja uppi með allan skaðann.
Nú reynir á hinn almenna borgara að hafna þessari uppvöktu nýlendustefnu og krefjast svara frá stjórnvöldum, jafnt sveitarstjórn sem og löggjafarvaldi um, hver ætlun þeirra er varðandi þessa ásælni.
Munum að valdið er okkar. En aðeins ef við stöndum saman og látum atkvæðin tala. Þess vegna er nauðsynlegt að vera virkur og láta sig framtíðina varða. Fyrir landið, fyrir okkur og börnin okkar.
Til að sjá myndina stærri á tölvuskjá er hægt að hægri smella á hana og velja "Open image in new tab/window"