Afli og aflaverðmæti eystra rýrnaði
Verðmæti þess afla sem verkaður var á Austurlandi minnkaði um tæpar 330 milljónir króna fyrstu fimm mánuði ársins saman borið við sama tímabil í fyrra. Aflaverðmæti íslenska flotans í heild jókst á móti um tvo milljarða og man tæpum fjörutíu og tveimur milljörðum króna.
Verðmæti þess afla sem verkaður var eystra voru tæpir 4,5 milljarðar króna miðað við tæpa 4,8 milljarða í fyrra. Mestu munaði um tæplega átta hundruð milljóna króna samdrátt í loðnu og loðnuhrognum. Aflaverðmæti þorsks minnkaði líka um rúmar 100 milljónir. Á móti jókst aflaverðmæti síldar og makríls um rúmar 560 milljónir.
Afli austfirskra skipa minnkaði í júlí úr 90.234 tonnum í 86.811 tonn. Mestu munaði um tæplega átta þúsund tonna minnkun í makríl á móti um fimm þúsund tonna aukningu í síld. Heildarafli íslenskra fiskiskipa var 160.152 tonn í júlí. Það er 4% meira en í júlí í fyrra.