Afslættir íþróttamannvirkja – fyrir þá sem mest þurfa?

Opið bréf til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar

Í gjaldskrám Fjarðabyggðar, er varða íþróttaiðkun þ.e. í sund, líkamsrækt og skíði, gefur að líta glæsilega afsláttarmöguleika fyrir öryrkja og eldriborgara. Því ber að fagna, enda mikilvægt að þau sem hafa minnst á mill handanna njóti afsláttarkjara til að rækta kroppinn. Þessu tengdu er skrýtið að sveitarfélagið bjóða svo upp á afsláttarliðinn:  „hjónaafsláttur“. Eru HJÓN sá hópur samfélagsins sem Fjarðabyggð finnst mikilvægast að styrkja til íþróttaiðkunar umfram einstæða foreldra?

Skoðum aðeins tölulegar staðreyndir:

„Niðurstöður benda til þess að fjöldi fullorðinna á heimili virðist hafa lykiláhrif á fjárhag heimilis og að börn hafi fyrst og fremst áhrif á fjárhag ef aðeins einn fullorðinn býr á heimilinu. Heimili einstæðra foreldra og einmenninga eru því líklegust til þess að búa við fjárhagsþrengingar.“ (Hagstofan. 2021. Félagsvísar: Sérhefti um fjárhag heimila).

„Þegar efnislegur skortur er greindur eftir fjölskyldustöðu kemur í ljós að mikill munur er á skorti eftir fjölskyldugerð. Staða einstæðra foreldra er í öllum tilfellum verst.“ (Varða – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins. 2022. Staða launafólks á Íslandi. Niðurstöður spurningakönnunar meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB).

Það verður þó ekki annað séð en að hér sé verið að mismuna, og já jaðarsetja enn frekar, einstæða foreldra. Þann hóp samfélagsins sem samkvæmt öllum mælingum býr við lakastan fjárhag allra landsmanna. Með því að bjóða ekki einstæðum foreldrum upp á sömu tækifæri og hjónum er sveitarfélagið ekki bara að mismuna jaðarsettum hópum, heldur jafnframt að stuðla að enn frekari jaðarsetningu. Skringileg hugmyndafræði!

Einnig er athyglisvert að velta fyrir sér af hverju þessi afsláttur afmarkast við hjón? Er Fjarðabyggð virkilega ekki komið lengra inn í nútímann en að það þyki eðlilegt og réttlætanlegt að hampa sérstaklega því fólki sem ganga í hjónaband? Hægt er með auðveldum hætti að velja nútímalegra, og í anda jafnréttis, önnur orð en orðið hjón eins og t.d. „par“. Það yrði þá í þessu tilviki „paraafsláttur“ eða jafnvel „vinaafsláttur“ í stað „hjónaafsláttur“. Nema þá að ætlunin sé að þeir sem eigi kost á afslættinum séu sannarlega gift?

Greinarhöfundar skora á Fjarðabyggð að endurskoða gjaldskrár íþróttamannvirkja vegna ársins 2023 með þessa gagnrýni í huga.

Höfundar eru hluti framboðs VG í Fjarðabyggð í sveitarstjórnarkosningum 2022 og hafna allri jaðarsetningu og ójafnrétti.

Anna Berg, náttúru- og landfræðingur

Helga Guðmundsdóttir Snædal, viðskiptafræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar