Ágæti sveitungi: Hugleiðingar í aðdraganda kosninga.

Borgarstefnan

Það hefur um langt árabil verið rekin borgarstefna í þessu landi, þar sem öll þjónusta fyrir landsbyggðina hefur smásaman sogast til höfuðborgarsvæðisins og ríkis- og þjónustufyrirtæki á þessarri sömu landsbyggð meira og minna útibú að sunnan, ef þau eru á annað borð. Ástæðan hefur jafnan verið tilgreind að þar sé markaðurinn, þar sé fjöldinn, þar sé stjórnsýslan og þar sé bolmagnið til að halda úti fyrirtækjum og þjónustu.

Prófmál

En hvað kemur þetta við sveitarstjórnarmálum á Austurlandi. Jú mig langar til að setja þetta í samhengi. Nú standa fyrir dyrum kosningar í bæjarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi og ég lít á þessa sameiningu sem prófmál, prófmál um það hvort stjórnvöldum er alvara með að hefja sveitarstjórnarstigið aftur til vegs og virðingar í þessu landi, eða hvort miðstýringaröflin í 101 Reykjavík eiga enn að ráða ferðinni.

Tilgangur laga

Lög eru hugsuð til að búa til góðar samskiptavenjur manna á milli og til að allir þegnar geti búið við öryggi til eignaréttar, tjáningar, skoðana, trúar eða hvers annars sem menn telja til hagsbóta í mannlegu samfélagi. Lög eru sett af fólki fyrir fólk, EKKI gegn fólki. Því miður eru kjörnir þingmenn í síauknum mæli farnir að láta embættismenn og lögfræðinga stofnana um að semja lögin vegna þess að það er auðveldrara en að taka slaginn og stjórna. Tilhneiging andlitslausra bírókrata er yfirleitt að sölsa til sín æ meiri völd og auka eftirlit með okkur þegnum þessa lands og afskipti á flestum sviðum, oft með eigin viðbótum við tilgang laganna til að byggja undir eigin starfsemi.

Réttlætiskenndin

Auðvitað eru lög og regla nauðsyn, en þegar reglugerðir eru farnar að misbjóða réttlætiskennd og heilbrigðri skynsemi þá er virkileg ástæða til að staldra við. Í starfi sveitarfélaga er því miður farið að bera á samskonar ákvarðanafælni kjörinna fulltrúa þannig að þetta verður líka prófmál á okkur sjálf, hvort við erum virkilega tilbúin til að stjórna eða hvort við látum gerræðislegar hugmyndir valtra yfir okkur, nýjasta málið er undirbúningur stofnunar Miðhálendisþjóðgarðs og allt reglugerðarfarganið sem mun fylgja honum.

Austrið mun rísa

Við ætlum að láta nýtt sveitarfélag marka söguna, söguna um það að hér búi enn ein þjóð í einu landi með jafna möguleika og sömu þjónustu. Til þess þarf margt að breytast, það er ekki lögmál að allt sé byggt upp fyrir sunnan. Það er kaldhæðnislegt að mesta ógn landsbyggðarinnar séu ekki náttúruöflin þrátt fyrir allt, heldur sjálfskipaðir talsmenn náttúrunnar, misvitrir embættismenn, ohf-stjórnunarskólinn og ákvarðanafælnir þingmenn.

Hemjum hælbíta

Það eru því miður allt of margir sem eru tilbúnir að leggja stein í götu framfara og uppbyggingar á landsbyggðinni og kerfið orðið samdauna því. Ekki dettur mér í hug að þetta sé af slæmum hug, heldur oft af misskilningi og vanþekkingu um grunnstoðir samfélagsins og þarfir atvinnulífs og mannlífs í hinum dreifðu byggðum. Hælbítarnir leynast í ráðuneytunum, þinginu og jafnvel hjá okkar næsta nágrenni, hælbítar sem halda að heimurinn nái eingöngu út að túngirðingunni eins og Helgi í kunnri barnabók. Reyndar voru hælbítar iðulegu bundnir við staur hér áður fyrr þar sem þeir gátu gjammað úti í loftið, og hent í þá afgöngum af og til.

Austurland, sterkasta landsvæðið

Fyrir nokkrum árum var kynnt skýrsla um horfur á Austurlandi og þar kom fram að það væri stór ágalli á fjórðungnum að ekki væri neinn einn afgerandi höfuðstaður, þar er ég algjörlega ósammála. Ég er sannfærður um að einmitt það verður styrkur til framtíðar, því þegar verður búið að laga samgöngur á milli enda hins nýja sveitarfélags þá geta tilvonandi íbúar valið um mismunandi búsetumöguleika, mismunandi atvinnumöguleika og mismunandi kúltúr eftir stöðum, allt meira og minna á sama þjónustusvæðinu.

Miðflokkurinn – Ísland allt

Það hefur verið meginmarkmið Miðflokksins að Ísland allt virki svo allir búi við sama öryggi, sömu grunnþjónustu, og sömu mögleika til atvinnuuppbyggingar, menntunar, menningar og lífsgæða hvar sem þeir búa. Við ætlum að vera trú þessarri stefnu og yfirfæra hana á hið nýja sveitarfélag svo ALLIR íbúar þess finni sig saman í þessarri sameiningu, ný Fjarðarheiðargöng til Héraðs og Axarvegur MUNU koma, það er klárt.

Ég styð Miðflokkinn því ég tel hann vera staðfastan í þessarri viðleitni og hvet alla til virkrar þátttöku í komandi starfi og í kosningum, góðar stundir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.