Aldarafmæli á Eiðum
Á fögrum haustdögum, 18.-20. október síðastliðinn, var hátíð á Eiðum í tilefni þess að nákvæmlega ein öld var liðin síðan Alþýðuskólinn á Eiðum var settur í fyrsta sinn.
Hápunktur hátíðarinnar var frumsýning nýrrar heimildarmyndar um Eiðaskóla og lífið á Eiðum sem að mestu snérist um skólann og þjónustu við hann. Austfirðingar nær og fjær sóttu skólann þá öld sem hann starfaði enda var hann héraðsskóli í þess orðs fyllstu merkingu. Góðar minningar og gleði er það sem einkennir frásögn þeirra fjölmörgu sem talað var við í myndinni.
Myndina gerði Guðmundur Bergkvist, Ásgrímur Ingi Arngrímsson skrifaði handrit, Jónas Sigurðsson sá um tónlistina og þulur er Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Aðalframleiðandi myndarinnar er Björn Jóhannsson. Allt fyrrverandi Eiðanemar. Rakin er saga skólans í tímaröð frá upphafi, árið 1919 og til lokaársins 1998. Gamlar ljósmyndir eru notaðar til að sýna eldri tímann, jafnframt því að sagan er sögð, en margir heimildarmenn koma fram í myndinni. Með nýrri tækni á síðari árum skólans hafa varðveist myndbönd sem sýnd eru í myndinni. Á þetta sérstaklega við um tónlistarþátt myndarinnar og síðustu árin í starfsemi skólans.
Í tíð fyrstu skólastjóranna, Ásmundar Guðmundssonar og Jakobs Kristinssonar, er minna um ljósmyndir og þar er farið fljótar yfir sögu. Í skólastjóratíð Þórarins Þórarinssonar, árin 1938 – 1963, er meira um ljósmyndir og fleiri heimildamenn sem segja frá skólavist sinni. Sagðar eru skemmtilegar sögur úr skólalífinu og af öflugu félagslífi, söng, dansi og leiklist nemenda auk íþróttaiðkunar ýmiss konar. Merkir atburðir eins og tilkoma rafstöðvar, árið 1935, og bygging sundlaugar og íþróttahúss árið 1932. Þar lærðu margir Austfirðingar að synda og lagður var grunnur að stofnun UÍA síðar. Skólablaðið, Helgi Ásbjarnarson, kom út. Með nýjum lögum um gagnfræðaskóla, árið 1946, var nýtt hús byggt og verknámshús. Bruni skólans á júnídegi árið 1960, var mikið áfall fyrir skólann og ekki síst fjölskyldu Þórarins Þórarinssonar sem missti allt sitt innbú í brunanum.
Haustið 1965 tók Þorkell Steinar Ellertsson við stjórn skólans með nýjar áherslur í skólastarfi. Hann vildi hafa mikinn aga á nemendum og voru reykingar, áfengi og samlíf kynja stranglega bannað. Íþróttalíf efldist og mikill metnaður var lagður í Marsinn, árlega árshátíð skólans í mars.
Með nýjum skólastjóra árið 1973, Kristni Kristjánssyni, slaknaði á hinum harða aga enda gerðu nemendur uppreisn. Tónlistarlíf blómstraði og ótal hljómsveitir urðu til og „stúdíói“ var komið upp þar sem ýmsir frægir tónlistarmenn stigu sín fyrstu spor. Leiklist efldist enn frekar og metnaðarfullar sýningar voru settar upp. Tölvukennsla var öflug og tölvur keyptar. Öll þessi þróun kemur vel fram í myndinni og árið 1978 er fjölbrautakerfi tekið upp í Eiðaskóla. Ári síðar er Menntaskólinn á Egilsstöðum stofnaður og markar það hugsanlega upphafið að endalokum Eiðaskóla. Skólarnir voru sameinaðir, árið 1995. Það kemur í hlut Stefáns Jóhannssonar, síðasta skólastjórans, að vinna að sameiningu Eiðaskóla og Menntaskólans árið 1995. Árið 1998 er skólahald formlega aflagt á Eiðum.
Í myndinni er þessari menningarsögu komið til skila á fjölbreyttan hátt svo útkoman verður áhugaverð saga um lífið í Alþýðuskólanum á Eiðum, skólanum sem eitt sinn var.