Almenningssamgöngur hafa aldrei verið mikilvægari

Alþingi samþykkti nýja samgönguáætlun árið 2020. Þar er gert ráð fyrir að almenningssamgöngur myndi eina sterka heild og að boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið með bættu aðgengi. Í stefnunni er líka lögð mikil áhersla á uppbyggingu göngu- og hjólastíga og reiðvega.

Vegagerðin heldur utan um rekstur almenningssamgangna á landsbyggðinni með flugi, ferjum og almenningsvögnum. Markmiðið er að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land. Í raun má segja að almenningssamgöngur hafi aldrei verið mikilvægari en nú. Því miður er það hins vegar þannig að dregið hefur úr notkun á þeim. Það þarf að fara í saumana á því hvað veldur og er ánægjulegt að vita til þess að Vegagerðin vinnur nú heildarendurskoðun á almenningssamgöngum og greiningu á hvernig fólk nýtir sér þær. Það blasir við að bæta þarf upplýsingagjöf, ferðir þurfa að vera tíðari, farartækin öruggari, kostnaður viðráðanlegur og vegakerfið öruggara.

Almenningssamgöngur eru loftslagsmál


Að bæta almenningssamgöngur á Íslandi er ekki bara liður í því að mæta skuldbindingum okkar í loftslagsmálum heldur risastórt jafnréttismál þar sem nauðsynlegt er að tryggja að öll geti treyst á almenningssamgöngur, óháð líkamlegri færni, búsetu og/eða efnahag. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu losunar sem ekki tekst að draga úr. Ísland hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Mikilvægt er að ljúka orkuskiptum á allra næstu árum, en samgöngur á lofti, landi og legi vega þar þyngst.

Til að bæta almenningssamgöngur þarf að að bæta samgöngur almennt. Ísland er strjálbýlt land og því er nauðsynlegt að innviðir landsins séu góðir og traustir. Samgöngur tengja saman byggðakjarna og landshluta og eru þannig forsenda öflugs atvinnulífs og gera fólki kleift að ferðast. En eins og við vitum eru samgöngur jafnframt ein helsta uppspretta loftmengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Orkuskipti í samgöngum þurfa að ganga hratt fyrir sig og ferðavenjur að taka breytingum. Við þurfum að stórefla almenningssamgöngur og gera þær að raunverulegum valkosti um allt land.

Stór skref verið stigin


Á Austurlandi hafa stór skref verið stigin í samgöngumálum á undanförnum áratugum. Norðfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng, vegur til Borgarfjarðar eystra, bundið slitlag í Berufirði, Loftbrú í innlandsflugi og áfram mætti telja. Allt eru þetta stórir áfangar sem hafa bætt líf og öryggi íbúa á Austurlandi og þeirra sem þangað koma. Enn er þó barist fyrir bættum samgöngum og enn er um hættulega fjallvegi að fara milli byggðakjarna á Austurlandi. Þrátt fyrir Loftbrú, er verð á flugmiðum heilt yfir enn það hátt að það er einungis á færi þeirra efnameiri að nýta sér flugið með reglulegum hætti.

Lengi hefur verið beðið eftir Fjarðarheiðagöngum og heilsársveg um Öxi í nýju sveitarfélagi og einu því víðfeðmasta á landinu; Múlaþingi. Ef áætlanir ganga eftir fara Fjarðarheiðagöng í útboð næsta haust og er það stór áfangi í áratuga baráttu fyrir göngunum. Öll þurfum við að leggjast á árarnar til að heilsársvegi yfir Öxi verði tryggt fjármagn sem fyrst.

Framboð og eftirspurn


Með betra og öruggara vegakerfi skapast kjöraðstæður til að stórefla almenningssamgöngur. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr greiningu Vegagerðarinnar. En eins og staðan er núna eru almenningssamgöngur óspennandi valkostur fyrir íbúa á Austurlandi og því þurfum við að breyta hratt og örugglega. Markmið stjórnvalda er að gera mun betur í samgöngumálum en gert hefur verið undanfarna áratugi. Á sama tíma hefur tæknileg og samfélagsleg þróun orðið til þess að tekjur ríkisins af umferð og ökutækjum hafa dregist mikið og hratt saman undanfarin ár. Í stjórnkerfinu er nú unnið að tillögum um breytt fyrirkomulag gjaldtöku fyrir hverskyns afnot af vegakerfinu. Ég tel afar mikilvægt að í þeirri vinnu, og raunar allri vinnu sem lýtur að samgöngum á Íslandi, séu hafðir hvatar til að fá fólk til að nýta sér umhverfisvænar almenningssamgöngur í meira mæli en nú er. Þetta helst nefnilega í hendur, framboð og eftirspurn.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar