And-legar pælingar

Á þessum vettvangi hef ég fjallað um núvitund. Núvitund er sú færni að geta verið meðvituð um það sem er að gerast akkúrat núna, innra með okkur eða í kringum okkur, með opnum og forvitnum hætti, án þess að dæma eða bæta nýjum lögum af hugsun við það sem er að gerast.

Þessa færni er hægt að byggja upp með ýmsum æfingum, svo sem hugleiðslu. Núvitund getur hjálpað okkur að „vakna“ upp þeim flaumi hugsana sem við erum svo oft týnd í. Hún getur aukið getuna til að bregðast við hugsunum og tilfinningum með sveigjanlegri hætti og dregið úr líkunum á því að þær taki stöðugt af okkur völdin.

En núvitundaræfingar reynast sumum erfiðar. Þegar streitustigið er mjög hátt og hugsanir hringsnúast á ógnarhraða í huganum getur reynst erfitt að beina athyglinni að einhverju, hvort sem það er andardrátturinn, einhver skynjun eða hugsanirnar sjálfar. En hvað er þá til ráða?

Eitt sem hægt er að prófa er að breyta því hvernig við öndum. Það er einfalt og það svínvirkar. Leyfið mér að útskýra.

Þegar streitustigið er hátt er líkaminn að undirbúa sig fyrir átök eða flótta. Ósjálfráða taugakerfið sendir skipanir um hraðari öndun úr mænukylfunni til öndunarfæranna um svokallaða flakkarataug (eða „vagus“ taug), en hröð öndun er eitt af skýrustu einkennum streitu.

Lengi var talið að við gætum lítil áhrif haft á ósjálfráða taugakerfið, en síðustu árin hafa aðferðir sem ganga einmitt út á það hlotið vaxandi athygli. Það er sumsé hægt að „hakka“ ósjálfráða taugakerfið og plata það til að slaka á. Þetta er gert með því að senda skilaboð í öfuga átt, frá öndunarfærum upp í heila, með því að örva flakkarataugina viljandi og markvisst. Ein algengasta og einfaldasta aðferðin er að hægja viljandi á önduninni. Þetta er ekkert nýtt, því stundum er okkur sagt að anda með nefinu þegar við erum æst. Það eru til verri ráð!

Til að róa taugakerfið er best að lengja útöndunina. Til dæmis má anda inn og telja upp í fjóra og anda svo út og telja upp í sex eða átta. Einnig má anda rólega, jafn lengi inn og út, en það stuðlar að jafnvægi. Best er að anda með nefinu. Með því að hægja á önduninni með þessum hætti telja menn að öndunarfærin sendi þau skilaboð til heilans að það sé engin hætta á ferðum og því sé óhætt að slaka á varnarkerfunum.

Þessa aðferð er hægt að grípa í hvenær sem við finnum fyrir streitu og álagi og eins gæti haft fyrirbyggjandi áhrif að doka við nokkrum sinnum á dag og hægja á önduninni. Eins má nota slíkar öndunaræfingar til að róa líkamann og hugann niður fyrir hugleiðslu. Að auki má auðveldlega breyta öndunaræfingu í hugleiðslu með því að beina athyglinni að önduninni og nota hana sem akkeri í núinu.

Það er til mjög gott og ókeypis app fyrir bæði Apple og Android síma sem ég mæli með að nota til að styðja við öndunaræfingar. Það heitir „The Breathing App“ og er mjög einfalt í notkun.

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar