Armslengd

Armslengd hefur mikið verið í umræðunni frá því að ákveðið var að selja hluta ríkisins í Íslandsbanka. Armslengd er ekki alveg nýtt fyrirbæri í stjórnsýslu ríkisins heldur má rekja hana allt til ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. En hvað er armslengd og hvers vegna varð hún til innan Stjórnsýslunnar? Hugmyndin á bak við armslengdina er algjör snilld ef við köfum aðeins dýpra í tilurð hennar.

Með armslengdinni er verið að koma þingmönnum sem eru ákvarðanafælnir undan þeirri ábyrgð að taka afstöðu til erfiðra mála á Alþingi. Armslengdin byggir á því að embættismenn taki ákvörðun í erfiðum málum, en bera þó enga ábyrgð á niðurstöðunni. Hægt er með þessari aðferðafræði að koma ábyrgð á viðkomandi ráðherra/þingmann henti það þingheimi. Þeir þingmenn og ráðherrar sem koma að málum sem armslengdin tengist bera ábyrgð ef marka má nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar. En þar er fjármálaráðherra látin taka pokann sinn, en armarnir í stjórnsýslunni halda sínum embættum, enda ekki svo auðvelt að koma þeim frá. Samningar starfsmanna ríkis og sveitarfélag eru skotheldir gagnvart flestum misgjörðum armanna. Þetta vita þeir og geta því gengið nokkuð langt án þess að nokkrum detti hug að þeir beri ábyrgð svo sem við sölu á eignarhlut ríkisins í fyrirtæki.

Sveitarfélag sem nýlega varð til við sameiningu fjögurra sveitarfélaga, tók upp armslengdina, með stæl. Mikið var gert úr nýju skipuriti sveitarfélagsins. Fjölgað var í sveitarstjórn, nefndir og ráð sameinuð með það að markmiði að gera þau skilvirkari. Komið var á fót heimastjórnum þar sem íbúar gömlu sveitarfélaga kusu sér fulltrúa til að fara með málefni viðkomandi samfélags. Ráðin var fulltrúi sveitarstjóra í byggðakjarnana fyrir utan eitt þar sem stjórnsýslan er til húsa.

Þetta er ein útgáfa af armslengd sem sveitarstjórn hefur komið á og gengur einna lengst í stjórnsýslunni. Með þessari armslengd telur sveitarstjórn sig því ekki þurfa að hafa nokkur afskipti af þessum gömlu byggðakjörnum, enda ráða armarnir þar öllu án þess að hinn almenni kjósandi hafi nokkuð um það að segja.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar