Arnbjörg í 2. sæti Norðaustur í prófkjöri Sjálfstæðisflokks
Tilkynning frá Arnbjörgu Sveinsdóttur um framboð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi:
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til 2. sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna Alþingiskosninganna í vor. Fyrir síðustu Alþingiskosningar fór fram fjölmennt prófkjör meðal sjálfstæðismanna í kjördæminu þar sem ég hlaut örugga kosningu í annað sætið.
Þar fór fram kosning um efsta sætið í kjördæminu sem Kristján Þór Júlíusson sigraði. Ég tel ástæðulaust að endurtaka slíka kosningu nú og tek því þessa ákvörðun.
Arnbjörg Sveinsdóttir, alþingismaður
Ferilupplýsingar:
Arnbjörg var fyrst kjörin á Alþingi árið 1995 og átti þar sæti til 2003. Kom aftur inn á Alþingi 2004 og hefur átt þar sæti síðan. Við upphaf kjörtímabilsins var Arnbjörg kjörin formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Áður hefur hún átt sæti í fleiri nefndum Alþingis þó lengst af í fjárlaganefnd, félagsmálanefnd (þar sem hún var formaður 1999-2003), í samgöngunefnd og menntamálanefnd. Þá átti Arnbjörg sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1999-2003 og 2004-2006, sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1995 og 2007 og í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA frá 2007 til dagsins í dag.
Arnbjörg hefur lengi gengt trúnaðarstöðum innan Sjálfstæðisflokksins. Bæði sem þingflokksformaður síðan 2005 og sem fulltrúi í miðstjórn frá 1995. Auk þess hefur hún verið virk í málefnanefndum flokksins um langt skeið.
Arnbjörg fæddist í Reykjavík 18. febrúar árið 1956. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1976 og stundaði nám við lagadeild Háskóla Íslands 1980-1982. Hún starfaði við fiskvinnslustörf o.fl. á skólaárum, var starfsmaður í afgreiðslu Smyrils og Eimskipa 1975-1979 og kennari við Seyðisfjarðarskóla 1976-1977. Hún starfaði sem fulltrúi í launadeild Ríkisspítalanna 1977-1980. Arnbjörg starfaði við verslunar- og skrifstofustörf 1982-1983, við skrifstofustörf hjá Fiskvinnslunni hf. og Gullbergi hf. 1983-1990 og sem skrifstofu- og fjármálastjóri Fiskiðjunnar Dvergasteins hf. 1990-1995.
Arnbjörg átti sæti í bæjarstjórn Seyðisfjarðar 1986-1998 og var forseti hennar 1994-1996. Hún sat einnig í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og var formaður þeirra frá 1991-1992. Á sama tíma var Arnbjörg formaður Landshlutasamtaka sveitarfélaga. Hún var einnig formaður stjórnskipaðrar nefndar um framhaldsnám á Austurlandi. Arnbjörg sat í skólanefnd Menntaskólans á Egilsstöðum 1991-1995 og í stjórn Héraðsskjalasafns Austurlands 1994-1997. Í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins 1995-1998 og stjórn Íbúðalánasjóðs 1999-2000. Í stjórn Byggðastofnunar frá 2000-2007, í stjórn Rariks frá 2003-2004, í stjórn Flugstoða ohf. frá stofnun þeirra árið 2007 og í Þingvallanefnd síðan 2008.