Helga Dögg Teitsdóttir og Elísabet Ósk Sigurðardóttir skrifa: Að taka virkan þátt í ýmiss konar starfsemi og samskiptum við aðra er einn þáttur í því að eiga gott líf.Það að hafa vinnu spilar stóran sess í lífi hvers einstaklings, ekki síst hjá þeim sem af einhverjum orsökum búa við skerta starfsgetu.Hér á Austurlandi hefur vinnu- og verkþjálfunarstaðurinn Stólpi á Egilsstöðum spilað stórt hlutverk í þeim tilgangi að gefa fötluðu fólki tækifæri til að nýta starfsgetu sína. Eitt af hlutverkum Stólpa hefur verið móttaka á umbúðum með skilagjaldi en Stólpi var um árabil umboðsaðili Endurvinnslunnar ehf. Á því hefur nú orðið breyting og viljum við greinarhöfundar skýra frá í hverju hún felst.
Á þeim tíma sem Stólpi hefur verið umboðsaðili Endurvinnslunar ehf. hafa orðið talsverðar breytingar á starfseminni sem leitt hafa til fækkunar á störfum fyrir fatlað fólk og í kjölfar þeirra varð starfið einhæfara og tilbreytingalausara. Þess vegna var ákveðið að segja upp samningnum við Endurvinnsluna ehf. en auk þess vantaði húsnæði fyrir aðra starfsemi Stólpa. Farið var í að kanna hvort endurvinnsluhlutinn væri ekki betur komin á öðrum stað þar sem sambærileg verkefni væru unnin. Niðurstaðan varð að Sorpstöð Héraðs tók að sér að verða umboðsaðili Endurvinnslunar ehf. en Íslenska gámafélagið sér um rekstur Sorpstöðvarinnar. Þessi breyting hefur gert rekstur beggja þessara eininga hagkvæmari, verkefnin fjölbreyttari og störfin talsvert meira gefandi fyrir starfsmenn. Starfsmaður sem áður var í verndaðri vinnu er nú kominn á almennan vinnumarkað en það hlýtur að vera markmið hvers velferðarþjóðfélags að fækka sérúrræðum fyrir fatlað fólk. Markmiðið er að fatlað fólk vinni við hlið ófatlað fólks.
Breytingin er ekki einungis að skila sér í bættum rekstri heldur er þjónustan við íbúa jafnframt orðin betri.Má þar til dæmis nefna að bæjarbúar þufa nú að fara á færri staðir með endurvinnanlegt sorp.
Fjölbreytt verkefni
Húsnæðið sem áður hýsti endurvinnsluhluta Stólpa er nú notað sem vinnusalur fyrir önnur verkefni sem Stólpi vinnur að. Má þar nefna pökkunarverkefni fyrir innréttingafyrirtækið Miðás,innpökkun á tímaritinu Glettingi og tímariti fyrir Soroptimistasamband Íslands og þá líma starfsmenn Stólpa límmiða á neytendaumbúðir fyrir Móður jörð. Einnig er þar hnýtt ábót og teygjur festar á merkispjöld fyrir Flugfélag Íslands. Í Stólpa er einnig unnið að ýmiss konar listsköpun, svo sem ofnar mottur og dreglar, prjónað, gerð merkispjöld, tækifæriskort og fleira. Það var lyftistöng fyrir Stólpa að fá þetta rými þar sem húsnæðið var orðið afar þröngt. Nú getur Stólpi bætt við sig fleiri verkefnum þannig að ef einhver þarf að láta vinna einföld störf þá er um að gera að hafa samband. Í þessu nýja rými er einnig lítið markaðshorn þar sem vörurnar eru til sölu.Atvinnumál fatlaðra eru eitt mikilvægasta hagsmunamál fatlaðs fólks og fátt skiptir fólk meira máli en atvinna. Við vonumst til þess að þessar breytingar eigi eftir að ganga vel og skila sér í fleiri störfum fyrir fólk með fötlun og þar með bættum lífskjörum.
Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.