Austfirðingar borga extra 420% ferðaskatt.

Hjartað í mér tók gleðikipp þegar ég fékk upp í hendurnar efni til þess að vinna á síðu tvö; Flugfélag Austurlands.

 

Þar sem ég er bæði mikil draumóramanneskja og með súrrandi hvatvísi dró ég ljómandi fína ályktun áður en ég opnaði fréttatilkynninguna sem úr var að moða. Já, alveg hreint ljómandi.

Á 20 sekúndum var ég komin út í farþegavél sem bæri mig til Reykjavíkur fyrir réttlætanlegt verð og sýndi þá Flugfélagi Íslands, nú Air Iceland Connect, í tvo heimana. Hvar Davíð keypti ölið. Nú væri tími fáránleikans liðinn og almenningur gæti farið að nýta sér þær almenningssamgöngur sem hann á rétt á.

Ok. Þetta var ekki alveg svona. Eða, bara alls ekki svona. Flugfélag Austurlands hyggur á flugrekstur frá Norðfjarðarflugvelli sumarið 2017 þar sem notast verður við eins hreyfils flugvél í útsýnisflugi fyrir ferðamenn auk þess sem reksturinn kemur til með að þjóna byggðum á Austurlandi í tengslum við flutning á vörum og frakt.

Þetta eru samt alveg frábærar fréttir og kannski upphafið að einhverju miklu meira en um það erum við Kári Kárason, framkvæmdastjóri Flugfélag Austurlands, hjartanlega sammála; landsbyggðarfólk býr við skert aðgengi að grunnþjónustu en með öflugum flugsamgöngum er hægt að laga þennan aðstöðumismun og félagið vill taka þátt í því að breyta þessari vitleysu.

Eftir nýtilkomna gleði mína, eftir ég svo lenti á jörðinni og eftir að frústrasjón mín vegna flugverðs fór á sama stað og áður gerði ég ekki svo hávísindalega könnun.

Þannig er mál með vexti að ferðabaktería mín er að detta á nýtt stig sem helst ekki í hendur við stefnu Air Iceland Connect. Kannski er þetta miðaldrakrísan, hver veit. Ok. Segjum sem svo. Miðaldrakrísan mín felst í því að mig langar ekki að eiga veraldlega hluti og hef tekið yfirgengilegar rassíur síðustu mánuði við að losa mig við allt það sem ég er ekki að nota. Að sama skapi langar mig að nýta peninginn minn, sem er reyndar enginn, í að ferðast. Þið skiljið hvað ég er að fara. Ekki safna dóti, heldur minningum. Mig langar að skoða allan heiminn.

Okok. Smellti mér inn á síðu lággjaldaflugfélags, en það er jú þannig sem við rúllum. Það er lengst fyrir okkur hér fyrir austan að keyra til Keflavíkur til þess að nýta okkur þessa súperdíla, það tekur heilan vinnudag hvora leið. Það er ekki alveg málið þegar maður vill nýta sér súpertilboð. Hei, við hoppum bara í „tengiflug“.

Þann 5. júní get ég hoppað til Edinborgar fyrir 7000 krónur, hvora leið. 14 þúsund samtals. Ég ræð við það. Sló þá upp leit að flugi til að koma mér suður. Jú, önnur leiðin kostar 19.000 og hin 17.000. 36.000 krónur samtals, ég ræð ekki við það.

Jess, ég get líka hoppað til Barcelona 25. júní fyrir 5500 hvora leið, eða 11.000 krónur. Frábært, ég ræð við það. Slæ í gleði minni inn fluginu sem ber mig að heiman og heim. Það er sama sagan, 17.000 hvora leið, eða 34.000. Nei, ég ræð ekki við það.

Eins og oft hefur komið fram er ég líka ævintýralega slök í stærðfræði, svo slæm að ég held því fram að ég hafi dottið á hjóli í æsku og stærðfræðistöðvarnar hreinlega þurrkast út. En, ég hringdi í vin sem formúlaði upplýsingar mínar í Exel (verkfæri djöfulsins).

Fljótt á litið komust við að því, ég og reiknivinurinn, að Austfirðingar borga extra 420% ferðaskatt. Frábært? Nei. Réttlætanlegt? Nei. Út í hött? Þurfum við að breyta þessu? Já. Á hraða snigilsins? Nei, því lífið er núna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar