Austfirsk framfaramál á afmælisári

Fyrir 50 árum var stofnfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi haldinn í Neskaupstað eða 8. október 1966. Að sambandinu stóðu þá um helmingur sveitarfélaga á Austurlandi en þau sem utan stóðu í byrjun gengu til liðs við Sambandið síðar. Síðan þá hefur margt breyst en þó er meginverkefni SSA enn það sama; Að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaga á Austurlandi. Það vissu sveitarstjórnarmenn fyrir 50 árum og það á enn við.


Samband sveitarfélaga á Austurlandi tekur þátt í ýmsum verkefnum og er samningsaðili við ríkisvaldið varðandi sóknaráætlun og fjármagn í Uppbyggingarsjóð Austurlands og Vegagerðina vegna almenningssamgangna. Rúmlega 90 milljónir koma í gegnum sóknaráætlun og er rúmlega helmingi ráðstafað í Uppbyggingarsjóð. Hluti framlagsins er svo nýttur til að kosta starf menningarfulltrúa og vinnu við markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar enda eru þar sameiginleg áherslumál allra sveitarfélaga á svæðinu.

Svæðisskipulag

Í ár hefur verið unnin undirbúningsvinna fyrir gerð svæðisskipulags fyrir Austurland og vinna við Áfangastaðinn Austurland verður tengd við það. Ráðinn var verkefnisstjóri með gerð skipulagsins og í svæðisskipulagsnefnd sitja 16 fulltrúar allra sveitarfélaga. Þetta verkefni er kallað áhersluverkefni SSA og fjármagnað af Sóknaráætlun. Auk þess mun fást mótframlag frá Skipulagssjóði. Mikilvægt er fyrir okkur íbúa Austurlands að hafa heildarsýn yfir möguleika fjórðungsins og þau tækifæri sem hér eru. Þannig getur svæðisskipulagið varpað ljósi á okkar sameiginlegu gæði og þannig vakið athygli nýrra íbúa, fyrirtækja og ferðamanna sem hingað vilja sækja.

Menntamál

Áhersla SSA á afmælisárinu hefur auk þess verið á menntamál en starfshópur vann tillögur varðandi uppbyggingu náms í fjórðungnum. Þær tillögur gengu m.a. út á að auka tækifæri til háskólanáms og rannsókna og efla starfsnám, svo eitthvað sé nefnt. Við sjáum unga fólkið okkar fara annað til náms en sem betur fer snúa nokkuð margir til baka að námi loknu. Tækifæri til framhaldsnáms og rannsókna þarf að vera til staðar enda styrkir það atvinnulífið sem fyrir er með því að fá hæft starfsfólk á svæðið.

Byggðastefna

Lengi hefur verið kallað eftir skýrri byggðastefnu af hálfu stjórnvalda. Í haust hefur staðið yfir vinna við nýja byggðaáætlun. Umræðan er alltaf af hinu góða en það er ekki nóg. Fjármagn þarf að fylgja í verkefnin til að þau geti orðið að veruleika en séu ekki bara falleg orð í skýrslu. Því miður eru nýframkomin fjárlög vonbrigði hvað þetta varðar og kalla á að sveitarstjórnarmenn, bæði á Austurlandi og um land allt, standi saman og sæki það fjármagn sem þarf til að standa undir nauðsynlegri þjónustu.

Fyrir hönd stjórnar SSA óska ég íbúum á Austurlandi gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Sigrún Blöndal, formaður SSA

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar