Austurland eitt sveitarfélag

Aðalfundur SSA 2015 var haldinn á Djúpavogi 2. og 3. október á síðasta ári. Eins og vera ber var fjöldi ályktana samþykktur á fundinum. Margar þeirra lítið breyttar frá fyrri fundum og aðrar nýjar. Venju samkvæmt var tekist á um sumar en aðrar runnu í gegn án mikillar umræðu. Meðal ályktana sem samþykktar voru frá allsherjarnefnd var ályktun um samstarf sveitarfélaga á Austurlandi:


Aðalfundur SSA haldinn á Djúpavogi 2. og 3. október 2015 skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga og innanríkisráðuneyti að setja þegar af stað vinnu til að móta hugmyndir að lýðræðis og stjórnkerfi svo hugmyndir um frekari sameiningu sveitarfélaga geti orðið að veruleika. Umtalsverður árangur hefur náðst í samstarfi sveitarfélaga á Austurlandi. Mikilvægt er að sveitarfélögin haldi áfram að leita leiða til að auka samstarf á ýmsum sviðum, íbúum landshlutans til hagsbóta.

Ekki fyrsta ályktunin

Enginn tók til máls við afgreiðslu ályktunarinnar og af því má ætla að vilji sé til þess innan raða sveitarstjórnarmanna á Austurlandi að stefna að því að: „...hugmyndir um frekari sameiningu sveitarfélaga geti orði að veruleika.“ Af ályktuninni má einnig ætla að skoðun fundarins hafi verið sú að eitthvað í því lýðræðis og stjórnkerfi sem við búum við torveldi eða í það minnsta auðveldi ekki frekara samstarf sveitarfélaga.

Þetta er ekki fyrsti aðalfundurinn þar sem ályktað er með svipuðum hætti. Á aðalfundi 2010 var samþykkt samhljóða að endurskipa í starfshóp sem: „...haldi áfram vinnu við að greina kosti og galla sameiningar Austurlands í eitt sveitarfélag. Vinnan byggi á tímamótasamþykkt 43. aðalfundar SSA og styðst einnig við samþykkt stjórnar SSA frá 2. nóvember 2009 um áherslur sem þar koma fram.“ Árið áður á aðalfundi hafði verið ályktað að fela stjórn SSA að: „...skipa starfshóp sem hafi það meginverkefni að fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt sveitarfélag.“

Af ofanrituðu er ljóst að frekari sameining og samstarf sveitarfélaga á Austurlandi er sveitarstjórnarmönum, fulltrúum íbúanna, ofarlega í huga og margir jafnframt tilbúnir að ganga alla leið og skoða þann valkost að sameina Austurland allt.

Samvinnan verið mikil

Sveitarfélög á Austurlandi eru átta. Þau eru öll lítil, sum agnarsmá og standa varla undir nafni sem slík og eru háð nágrannasveitarfélögum varðandi grunnþjónustu. Önnur stærri s.s. Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð standa undir meiri þjónustu eðli málsins samkvæmt en ekkert sveitarfélag á Austurlandi hefur þó burði til að standa eitt og sér enda hefur mikil samvinna einkennt samskipti þeirra um árabil. Má þar t.d. nefna málefni tengd skóla- og félagsmálum, brunavörnum o.fl. Stofnun Austurbrúar 8. maí 2012 ber þessari samvinnu glöggt vitni. Austurbrú var stofnuð með það að markmiði að vinna að hagsmunamálum íbúa Austurlands með því t.d. að einfalda stjórnsýslu og vera vettvangur fyrir samstarf og samþættingu á þjónustu og vera í forsvari fyrir þróun atvinnulífs, samfélags, stjórnsýslu, háskólanáms, símenntunar, rannsókna og menningarstarfs.

Öllum sem til þekkja er ljóst að margt hefði mátt betur fara í starfsemi Austurbrúar á þessum upphafsárum og að staða hennar í dag er önnur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Það breytir ekki því að sumt hefur tekist vel og hugmyndafræðin að baki stofnuninni stendur fyrir sínu. Hið sama á við um sameiningar sveitarfélaga, hvort heldur þær sem átt hafa sér stað hér eystra eða annars staðar. Þegar frá líður verður ljóst hvað hefði mátt betur fara og hvað hefði mátt gera öðruvísi. Enginn er óskeikull.

Fleiri verkefni til sveitarfélaganna

Fyrirsjáanlegt er að á næstu árum muni fleiri verkefni verða flutt frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna sem liður í eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þá er nauðsynlegt að sveitarfélögin sem við þeim taka hafi til þess burði og innviði sem ráða við verkefnið.

Austurland hefur um margt verið í fararbroddi þegar kemur að samstarfi og samvinnu sveitarfélaga, svo að eftir hefur verið tekið. Reynslan sem orðið hefur til í fjórðungnum undanfarin ár með tilkomu Austurbrúar og sameiningu sveitarfélaga er dýrmæt. Í því ljósi er brýnt að hafist verði handa við að fylgja eftir ályktun aðalfundarins frá síðasta ári og að í framhaldinu verði mótaðar tillögur að lýðræðislegu stjórnkerfi sem mögulega yrði grunnur nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi.

Höfundur er sveitarstjóri Djúpavogshrepps

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.