Austurland tækifæranna
Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun síðan í september 2024 var atvinnuleysi ekki nema 1,5% á Austurlandi. Þetta vitum við vel sem búum hér enda mikil eftirspurn eftir starfsfólki um allan landshlutann. Við höfum sterka atvinnuvegi sem krefjast breiðrar menntunar og sífellt fjölgar í hópi þeirra sem vinna óstaðbundin störf, það eykur fjölbreytni á vinnumarkaði umtalsvert.Ungt fólk flytur heim meðal annars á þeirri forsendu að geta tekið starfið með sér austur. Auka þarf við húsnæði þar sem boðið er upp á aðstöðu fyrir störf án staðsetningar, og framboð af tímabundinni vinnuaðstöðu fyrir þá sem eru á ferðalögum vegna vinnu.
Uppbygging
Hér erum við að sjá nýbyggingar rísa þrátt fyrir erfiða vaxtastöðu og samkvæmt mælaborði HMS eru nú 143 íbúðir skráðar í byggingu eða hafa byggingaráform á árinu 2024. Nýbyggingarnar eru dreifðar um landshlutann og er mikið byggt af litlum og millistórum einingum sem talin er mest þörf á. Sveitarfélög á Austurlandi hafa gefið afslátt af gatnagerðargjöldum undanfarin ár sem hvata til aukinnar uppbyggingar með góðum árangri.
Fjölskylduvænt Austurland
Börn á Austurlandi komast að jafnaði inn á leikskóla um eins árs aldur um allan landshlutann sem skiptir miklu máli fyrir barnafjölskyldur. Á Austurlandi er einnig góð aðstaða til íþróttaiðkunar fyrir alla aldurshópa og mikil þátttaka í íþróttastarfi. Flest þjónusta er í nærumhverfi og umferðarþungi afskaplega lítill. Íbúar Austurlands þurfa því aldrei að sitja fastir í umferð löngum stundum eða ferðast langar vegalengdir og hafa því meiri tíma fyrir fjölskyldu og áhugamál, það er sannarlega gott að búa á Austurlandi.
Innviðauppbygging
Okkur hefur lánast að sameina sveitarfélög einna mest á landinu sem gefur okkur sterka og sameinaða rödd á sveitarstjórnarstiginu eins og sést með Svæðisskipulagi Austurlands.
Innviðauppbygging líkt og hringtenging Austurlands með jarðgöngum, Suðurfjarðarvegur og Öxi, eru mikilvægir þættir til að efla Austurland enn frekar og gefa því færi á að vera eitt atvinnusóknarsvæði.
Fjárfesting í innviðum er ekki aðeins forsenda heldur lykilþáttur í að viðhalda og bæta lífsgæði. Slíkar framkvæmdir stuðla að sjálfbærni og hagvexti og gera íslenskt samfélag betur undirbúið til að takast á við framtíðaráskoranir.
Framsókn hefur sannarlega talað fyrir aukinni innviðauppbyggingu á Austurlandi en betur má ef duga skal, tryggja þarf fjármuni í verkefni og mikilvægt að Austurland eigi sína fulltrúa á Alþingi Íslendinga.
Þess vegna gefum við kost á okkur á lista til komandi Alþingiskosninga og vonumst eftir að fá stuðning frá ykkur kjósendum til þess.
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitastjórnar Múlaþings og skipar 3. sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi
Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð og skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi