Austurland til framtíðar: Hvar mun ég búa eftir 10-15 ár?
Það er þrennt sem mun ráða mestu um hvar ég mun búa eftir 10-15 ár:
1. Verð á innanlandsflugi.
2. Samgöng á milli helstu byggðakjarna á Austurlandi á næstu 10-15 árum.
3. Reglulegt millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll.
Samfélög standa og falla með samgöngum, því miður eru þær bæði lélegar og dýrar á Austurlandi. Austurland er fámennt og þjónustan dreifð og aðskilin af erfiðum vegum. Það verður að stytta og bæta samgöngur milli þéttbýlisstaða og búa til byggðakjarna sem er samkeppnishæfur um fólk og fyrirtæki.
Í dag eru fáir aðrir en þeir sem hingað eiga rætur sem líta á Austurland sem alvöru valkost til búsetu. Þeir sem ákveða að setjast hér að standa svo frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort þeir ætli að búa hér áfram þegar börnin þeirra stofna sína eigin fjölskyldu fyrir sunnan.
Við hvetjum börnin okkar til að mennta sig og standa sig vel. Til að mennta sig og nýta tækifærin fara flestir út úr fjórðungnum og þetta gerist á sama tíma og unga fólkið nær sér í kærasta eða kærustu. Í dag búa 3% Íslendinga á Austurlandi og því yfirgnæfandi líkur á því að börnin okkar eignist maka sem er ekki af austan.
Svo kemur að því að þau ákveða hvar skuli búa og eins og hjá okkar kynslóð velur meirihluti þeirra að búa utan Austurlands. Eins og gengur koma barnabörnin í heiminn og þá vilja afar og ömmur sjá þau sem oftast, en til að hittast þarf að keyra 8-10 klukkutíma eða kaupa rándýr flugfargjöld. Það sjá það allir að þetta gengur illa upp.
Ef við breytum ekki aðstæðum á Austurlandi heldur þessi þróun áfram og engin raunveruleg fjölgun mun eiga sér stað.
Ef við náum þessu þrennu í gegn eru meiri líkur en minni að ég muni búa hér á Austurlandi að 15 árum liðnum, ef ekki, mun maður líklega elta börn og barnabörn suður, sagan sýnir okkur það.
Ég hvet ykkur öll til að mæta á opinn íbúafund 15. mars nk. í Valaskjálf á Egilsstöðum og hafa áhrif á Austurland framtíðarinnar.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur á þriðjudag, 15. mars, fyrir opnum íbúafundi um framtíð Austurlands í tengslum við endurskoðun sóknaráætlun fjórðungsins. Fundurinn ber yfirskriftina „Austurlandið mitt“ og verður í Valaskjálf, Egilsstöðum klukkan 17:00-20:00.