Austurland til framtíðar: Lausnin er í hjarta þínu
Hey þú, ógeðslega töff, ég er að tala við þig!Já þig.
Því nú veltur þetta allt á þér. Spurningarnar hellast yfir okkur og þú einn ert með öll svörin.
Eins og oft áður, þá stöndum við á vegamótum. Krossgötum. Hvert skal fara? Hvert skal stefna? Eigum við að taka beygju? Til hægri? Eða þá til vinstri? Hvað vilt þú? Hvert vilt þú fara? Hvernig Austurland vilt þú?
Já. Nú þurfum við á svörum að halda, góði vinur. Og eins og svo oft áður þá vitum við að þú hefur svörin í hendi þér. Lausnina. Hún er nefnilega í hjarta þínu og ég segi þér það satt, kæri vinur, nú er rétti tíminn til þess að koma og létta af þínu góða hjarta. Og um leið aðstoða okkur öll hin til þess að taka réttar ákvarðanir fyrir okkur öll varðandi næstu skref.
Æ, þú þekkir hvernig þetta vill stundum verða. Alltof margir halda að þeir geti leyst öll heimsins vandamál við eldhúsborðið heima hjá sér eða á kaffistofunni. Varpa þar fram yfirlýsingum um menn og málefni, og hvað það sé nú vitlaust að gera þetta með þessu hætti eða hinum.
Hugsum ekki of mikið um það, nú er nefnilega rétti tíminn til þess að stoppa við. Við þurfum á þínum skoðunum á að halda. Þínum hugmyndum. Þessum sem þú ert búinn að vera velta fyrir þér undanfarið. Trúðu mér, þær eru góðar og ég veit að þær munu nýtast okkur öllum vel í nánustu framtíð. Kæri vinur, alls ekki vera feiminn. Þetta fer allt vel. Þú þarf bara að halda áfram að trúa á sjálfan þig, og miðla síðan áfram þekkingu þinni, hugmyndum og skoðunum.
Framundan er stefnumótun varðandi framtíð Austurlands. Endurskoðun og mótun á nýrri Sóknaráætlun fyrir landshlutann stendur yfir. Þetta er mjög mikilvæg vinna sem snertir okkur öll og afar mikilvægt er að sem flestir komi að þeirri vinnu. Sérstaklega er mikilvægt að þeirri vinnu komi ekki bara þessir usual suspect sem alltaf eru að mæta fundi sem þessa.
Sem sagt Austurland bíður. Þú kemur. Við treystum á þig. Þetta er þriðjudaginn 15. mars nk. í félagsheimilinu Valaskjálf, kl. 17:00.
Stattu þig. Núna. Í guðanna bænum, ekki tuða heima. Vertu töff. Komdu.