Austurland til framtíðar: Þetta eitthvað annað

Á Austurlandi er atvinnuástand almennt mjög gott. Og það er kostur. Það er gott að geta verið í frumkvöðlabrölti en geta síðan sótt um í álverinu ef allt fer á versta veg. Ferðamennskunni hefur vaxið fiskur um hrygg og er hún orðin mjög umfangsmikil á Austurlandi yfir sumartímann. En spurningin er hvort við eigum ekki inni sóknarfæri á fleiri sviðum.


Nú er það þannig að þegar kemur að skapandi starfi og fræðimennsku er fámennið eftirsóknavert. Rólegheit í umhverfinu eru bæði sjaldgæfur og verðmætur lúxus sem fræði- og listamenn um allan heim sækjast eftir. Við erum aðeins farin að fikra okkur áfram á þessari braut. Seyðfirðingar fara þar fremstir í flokki með listamannaíbúðirnar í Skaftfelli og LUNGa skólann en ég hugsa oft um alla aflögðu sveitaskólana og tómu hótelin á vetrum í samhengi við háskólasetur, listakademíur og lýðháskóla. Og þarna þarf ekkert að finna upp hjólið. Mjög góðar fyrirmyndir má finna víða á Norðurlöndunum og annars staðar. Samstarf við háskóla, hérlendis og/eða erlendis, væri upplagt.

Sumt þarf að vera í návígi við stórborgir þar sem stutt er í alla þjónustu en annað bara alls ekki. Um allan heim eru rithöfundar, fræðimenn og listamenn á hverju ári að leita að aðstöðu þar til að vinna að verkum sínum, í listamanna- eða fræðimannaíbúðum eða skipulagðara umhverfi ritbúða eða smiðja. Afleiðing af stofnun einhvers konar háskólaseturs á Austurlandi gæti einnig orðið sú að til yrði aðstaða fyrir nemendur í framhaldsnámi í háskóla að koma aftur og vinna hér lokaverkefni sín, hvort sem þau tengjast svæðinu eða ekki.

Í dag þarf mjög einbeittan brotavilja til að snúa aftur á Austurlandið með framhaldsmenntun í hugvísindum. Störf í faginu eru mjög fá og langflest í kennslu. Meiri tenging við listamanna- og/eða fræðisamfélag landsins og heimsins myndi gjörbreyta landslaginu hvað varðar búsetu langskólagengins fólks á Austurlandi.

Til þess að atvinnu- og menningarlíf á Austurlandi verði kröftugt og fjölbreytt, eins og segir í sóknaráætlun, þarf að hlúa að öllum þáttum þess. Mætum öll á íbúafund í Valaskjálf þriðjudaginn 15. mars og ræðum málin.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur á þriðjudag, 15. mars, fyrir opnum íbúafundi um framtíð Austurlands í tengslum við endurskoðun sóknaráætlun fjórðungsins. Fundurinn ber yfirskriftina „Austurlandið mitt“ og verður í Valaskjálf, Egilsstöðum klukkan 17:00-20:00.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar