Austurland til framtíðar: Við getum deilt gæðunum
Við erum svo heppin. Við höfum allt sem við þurfum og gott betur. Við búum við öryggi. Við búum í fallegri náttúru og sum í risastórum húsum, hér flæðir vatnið fram undan hverjum kletti og hér trítla hreindýr um í bakgörðum, rjúpur ropa, spóar vella og silungar stökkva. Hér er fallegt og hér er gott, hér er betra en víða annars staðar.
Við erum líka flest frekar vel meinandi, við viljum búa vel að hverjum manni og við viljum að börnin okkar og barnabörn njóti sömu gæða og við höfum notið.
Svo getum við alveg deilt þessum gæðum með fleira fólki, það er nóg til.
Það sem er svo frábært við að búa hér er að við getum eiginlega gert það sem okkur sýnist og verið margt í einu. Reyndar eru ótrúlega margir sem eru að gera svo marga spennandi hluti, að það er eiginlega ómögulegt að segja til um hvað þeir nákvæmlega gera.
Það kæmi eflaust mörgum á óvart hvað er mikil gróska í skapandi stafi á Austurlandi, hversu margir pínulitlir vinnustaðir hér taka þátt í hringiðu síns fags á alþjóðlegum vettvangi, eru jafnvel að gæðum á pari við það sem best gerist í viðkomandi fagi. Til viðbótar við alla óslípuðu demantana sem leynast víða.
Það sem er svo frábært við samtímann er að við getum bæði búið á hjara veraldar og samt tekið þátt í alþjóðlegu vinnuumhverfi. Átt hænur og býflugur og börn sem leika sér úti frá morgni til kvölds, á meðan við sitjum inn í stofu á vinnufundi með fólki í París og Reykjavík og Höfðaborg.
En þetta er ekki sjálfgefið heldur frekar ný tilkomið og ekki alveg orðið partur af allsherjar skipulagi hlutanna.
Kannski þurfum við nýjar aðferðir til að skilgreina hvað við gerum eða hver við erum. Kannski mættum við skilgreina aðeins minna.
Ég held að okkar mestu verðmæti séu fólgin í okkur sjálfum.
Alltént, ef þú tekur ekki þátt í samtalinu um framtíðina, þá mun þín sýn, þekking og markmið ekki komast til skila. Þá vantar eina rödd í kórinn.
Ég er ein af þeim sem finnst yfirleitt frekar leiðinlegt á fundum; vont kaffi, fólk sem talar rosalega mikið, maður verður allur svona kaldsveittur og syfjaður. Það eru samt nokkrir sem hafa mjög gaman af slíku fundastandi og þeir mæta alltaf, ef þú lætur þig ekki hafa það að mæta, þá fá þeir alltaf að ráða.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur í dag, þriðjudag, 15. mars, fyrir opnum íbúafundi um framtíð Austurlands í tengslum við endurskoðun sóknaráætlun fjórðungsins. Fundurinn ber yfirskriftina „Austurlandið mitt“ og verður í Valaskjálf, Egilsstöðum klukkan 17:00-20:00.