Austurland til framtíðar: Viðhorfið mótar okkur
Mig langaði til að skrifa grein þar sem ég færi á flug í lofræðu um hversu dásamlegt Austurland er, hversu frábært það er að búa hérna, hve náttúran er stórfengleg, fjölskrúðugt kærleiksríkt mannlíf, spennandi listalíf og tækifæri til allskonar við hvert fótmál - því það væru ekki miklar, jafnvel á köflum engar, ýkjur. Þetta er þó ekki alveg svoleiðis grein.
Í dag eru þrjú og hálft ár síðan ég flutti aftur austur en áður hafði ég búið á Brúarási í Jökulsárhlíð í fjögur ár. Ástæðan fyrir því að ég kom til baka var að þegar ég flutti burt var ég ekki í hjarta mínu fullkomlega sátt við að fara. Ég hafði kynnst mörgu góðu fólki á Jökuldal, í Hlíðinni, Tungunni, Eiðum og á Egilsstöðum. Mér hafði verið vel tekið með þeim kostum og göllum sem einkenna mig, en einnig var því vel tekið sem ég lagði til í skólaumhverfinu sem og menningar- og listalífinu hér fyrir austan. Ég hafði upplifað virðingu, samstöðu og jákvæðni meðal fólksins sem var í kringum mig og það var dýrmæt uppbyggileg reynsla.
Nú! Ég kom þar af leiðandi full bjartsýni til baka og ekki má gleyma að mér bauðst aftur tækifæri til að sjá fjölskyldunni farborða í þessum gróskumikla landshluta.
Það er skemmst frá því að segja að nýja starfið og nýja umhverfið hefur mér þótt áhugavert, oft hefur verið skemmtilegt og stundum mjög krefjandi. Ég hef sannreynt að í jákvæðum og samstilltum hópi er hægt að ná góðum árangri og taka framfaraskref. Ég hef líka fundið hvernig neikvæðni, öfund, nöldur og dómharka brýtur niður og hefur gríðarlegan eyðileggingarmátt.
Ég er sannfærð um að viðhorf fólks hér á Austurlandi til fjölbreytileika, jafnréttis, lista, menningar og menntunar, sjálfbærni og heilbrigðis, móta framar öðru hversu vel okkur á Austurlandi mun vegna í framtíðinni. Viðhorfin þurfa að mínu mati fyrst og fremst að einkennast af jákvæðni, vera uppbyggjandi, án ótta við breytingar, öfundar eða fordóma í okkar eigin garð og annarra.
Ég skora á þau ykkar, konur jafnt sem karla, nýbúa, innfædda, ungt fólk og eldra, það er að segja ykkur öll sem hafið skoðun á því hvað virkar og hvað virkar ekki í austfirsku samfélagi, að mæta og láta í ykkur heyra á íbúafundi í Valaskjálf þann 15. mars nk. Að taka þátt í að hér sé uppbygging og samstaða er mjög mikilvægt verkefni sem snertir alla íbúa landshlutans.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur á þriðjudag, 15. mars, fyrir opnum íbúafundi um framtíð Austurlands í tengslum við endurskoðun sóknaráætlun fjórðungsins. Fundurinn ber yfirskriftina „Austurlandið mitt“ og verður í Valaskjálf, Egilsstöðum klukkan 17:00-20:00.