Austurland til framtíðar: Sóknaráætlun Kardimommubæjar

Kæru austfirsku ungmenni,

Þann 15. mars næstkomandi klukkan 17:00 verður haldin íbúafundur í Valaskjálf á Egilsstöðum.

Ég viðurkenni það fúslega að fyrstu myndirnar sem skutust í kollinn á mér við hugsunina voru bæjarstjórinn í Latabæ að tilkynna bæjarbúum það að íþróttaálfurinn ætlaði sér að slást í lið með honum við það að koma þeim í viðunandi líkamlegt stand fyrir íþróttakeppnina við næsta bæjarfélag.

Já eða Bastían bæjarfógeti og aðrir bæjarbúar Kardimommubæjar að færa Tóbíasi í turninum talandi páfagauk og hvolp í búri í tilefni af afmæli gamla veðurfræðingsins í turninum.

Húrra, Húrra, Húrra!

Staðreyndin er þó sú að á þeim íbúafundi sem um er rætt verður viðfangsefnið endurskoðum sóknaráætlunar Austurlands.

Já, sóknaráætlun. Ég veit, ég hafði ekki hugmynd heldur.

En í sóknaráætlun hvers landshluta felast þau markmið sem íbúar hafa fyrir samfélag sitt þegar horft er til framtíðar.

Þannig að; sóknaráætlun, óspennandi orð en mjög mikilvægt hugtak.

Þetta þýðir að með því að láta sjá ykkur á fundinum getið þið haft áhrif á að móta þá stefnu sem þróun samfélagsins okkar tekur.

Útlit umhverfisins, bæjarskipulag, velferðarkerfið, atvinnulífið, menningarmál, menntamál og svo miklu meira.

Hvaða flötur samfélagsins sem það er, þú getur komið á fundinn með þínar hugmyndir að úrbótum, komið þeim frá þér og vonandi hjálpað til við að breyta og bæta samfélagið.

Mikilvægi þess að ungt fólk sæki fundinn er gífurlegt. Það erum jú við sem munum búa í þessu samfélagi í framtíðinni og því er eðlilegt að við fáum eitthvað að segja um hvaða stefnu samfélagið tekur.

Hvernig það verður þegar okkar tími er kominn til þess að taka við keflinu, ala börnin okkar upp og vonandi njóta allra þeirra auðlinda og lystisemda sem landshlutinn getur mögulega boðið okkur.

Atvinnuleikhús, öruggar samgöngur milli byggðakjarna allt árið um kring, meiri fjölbreytni á vinnumarkaðnum, aukið starf í menningarmálum í Fjarðabyggð.

Þetta er það sem liggur mér á hjarta og ég ætla að koma á framfæri þann 15. mars næstkomandi.

Kæru jafnaldrar!

Ég er þess fullviss að þið hafið margt að segja um fyrirkomulag samfélagsins og stendur ekki á sama um það hvert það stefnir á næstu árum og áratugum.

Ég skora því á austfirsk ungmenni að fjölmenna í Valaskjálf klukkan 17:00 15. mars og láta rödd sína heyrast vegna þess að ef við þegjum þá er engin leið til þess að þróunin verði sú sem að við ímyndum okkur.

Komdu á íbúafund, þetta er allt undir þér komið.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.