Bæjarstjórnin í Múlaþingi og Seyðisfjarðargöngin

Nokkuð hefur verið fjallað um Seyðisfjarðargöng og sýnist þar sitt hverjum. Stjórnendur í Múlaþingi eru tvístígandi í hvar gangnamunninn á að koma út Héraðsmegin og virðist bæjarstjórninni frekar hlusta á rök annarra en að líta til þess hvar vilji Seyðfirðinga liggur og hvernig samspil vegfarenda og íbúa Egilsstaða og Seyðisfjarðar fara best saman.

Hver er vilji Seyðfirðinga? Hefur verið gerð könnun á vilja hvar hugur þeirra stendur til samganga til og frá sveitarfélaginu þeirra? Hvert er samspil flugvallarins á Egilsstöðum við Seyðisfjarðagöng og höfnina á Seyðisfirði? Er hægt að vinna með skemmtiferðaskip og nýta þetta samspil til að koma á verkefni um farþegaskipti?

Tvær leiðir

Í þessu verkefni virðast einungis tvær leiðir færar, suðurleið eða norðurleið. Þær leiðir þurfa ítarlega skoðun og verður að greina kosti og galla með hvar framtíðarlega vegarins skili hámarks arði til langrar framtíðar. Aðrar tillögur sem hafa komið fram eru illa ígrundaðar og meingallaðar að mínu mati. Hafa ber í huga að þessi vegur mun vega þungt í framtíðarskipulagi Egilsstaðabæjar til langrar framtíðar. Nokkuð hefur borið á áhyggjum á að fyrirtæki hafi sett sig niður við þjóðbraut. Vissulega er það svo og taka verður sérstakt tillit til þeirra sjónarmiða við færslu þjóðbrauta. Hitt er svo að þessi framkvæmd tekur nokkurn tíma og breytingar eiga sér stað hjá fyrirtækjum í miðbæjum. Þau þróast og þurfa meira rými sem oft á tímum er ekki í boði í hjarta bæjarfélags auk þess eru sum bæjarfélög betur staðsett í þjónustulegu tilliti og mikið þarf til að það breytist.

Leið eitt, norðurleið (Blá á korti)

Unnið með tillöguna um að gangamunninn verði fyrir ofan Steinholt með vegtengingu inn á þjóðveg 93 fyrir neðan Lönguhlíðina. Ekki þarf að gera annað að þessu sinni en að leggja vegstubb að núverandi vegi og brúa Miðhúsaána og umferð fer sömu leið og nú, yfir núverandi brú á Eyvindará og inn á Fagradalsbraut. Jafnframt verði unnið með eldri hugmyndir Vegagerðarinnar um brú við Melshorn og í framhaldi þarf stjórn Múlaþings að girða sig í brók, er varðar skipulag vegna nýrrar brúar á Lagarfljót með tilliti um lengingu Egilsstaðaflugvallar til suðurs. Þegar þessi framkvæmd verður öll komin til framkvæmda, þá léttist verulega á umferð um miðbæ Egilsstaða, sérstaklega vegna þungaflutninga. Svörtu brotastrikin á kortinu eru jarðgöng.

Leið tvö, suðurleið (Rauð á korti)

Verði valið að fara svokallaða Dalhúsaleið, skal gerð krafa um að fara í gegnum eins kílómetra göng í gegnum Egilsstaðaháls, gengt gangnamunnanum við Dalhús og þaðan beint niður á Vallaveg við Kollsstaði. Þá næst sama niðurstaða og við norðurleiðina, það mundi létta á allri umferð um miðbæinn.

Leið tvö er það langt frá núverandi þéttbýli á Egilsstöðum að ekki þarf að taka tillit til skipulags bæjarins í bráð og helgunarréttur vegarins verður virtur við skipulag umhverfis veginn á síðari stigum. Auðvelt verður að hanna að- og fráreinar frá veginum og mislæg gatnamót í fyllingu tímans.

Hvor leiðin sem farin verður, breytir samt ekki þeirri staðreynd að það verður að byggja nýja brú á Lagarfljót fyrr en seinna. 

pelli kort1 sfkgong

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.