Bættar samgöngur – vaxandi samfélag

Niðurgreiðsla innanlandsflugs er skref í þá átt að jafna aðgengi að því sameiginlega sem byggt hefur verið upp í höfuðborg okkar allra og styrkja byggð í öllum fjórðungum. Niðurgreiðslan er því réttlætismál fyrir þá sem fjærst búa frá sameiginlegri þjónustu, aðstöðu og afþreyingu höfuðborgarinnar, sem er líka mikilvægt byggðamál.

Reykjavík, höfuðborg allra landsmanna, er miðpunktur samfélags okkar. Þar er aðsetur Alþingis, stofnana og embættismannakerfis ríkisins, þar eru höfuðstöðvar stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka, fjölmiðla og allra þeirra sem taka mikilvægar ákvarðanir um íslenskt samfélag.

Höfuðborgin er líka miðstöð menningar, menntunar, lista og íþrótta. Í höfuðborginni eru mikilvægar sameiginlegar stofnanir svo sem Landsspítalinn með allri sinni sérhæfingu sem við öll þurfum á að halda og hafa greiðan aðgang að. það segir sig því sjálft að íbúar landsbyggðanna þurfa að hafa gott aðgengi að höfuðborginni sinni.

Í dag hefst niðurgreiðsla á flugfargjöldum í innanlandsflugi þar sem leitast er við að jafna þá skekkju sem átt hefur sér stað vegna búsetu. Ef vel til tekst, þá gæti þetta orðið byrjunin á öflugri byggðaaðgerð sem mun gera fólki fært að búa áfram þar sem það vill búa og auka líkur þess að fólk velji sér búsetu utan höfuðborgarsvæðisins. Við viljum því hrósa samgöngumálaráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir að taka forystu í þessu mikilvæga máli og koma því á þann stað sem það er nú.

Í febrúar 2016 stofnuðum við hópinn Dýrt innanlandsflug – þín upplifun. Frá byrjun höfum við talað um að „ef flugfélögin gætu ekki boðið notendum sínum flugfargjöld á verði sem þeir geta nýtt sér, yrði ríkið einfaldlega að stíga inn og niðurgreiða flugfargjöldin“. Í maí sama ár skrifaði Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, fyrst allra um „skosku leiðina“, aðferð sem nýtt hefur verið með góðum árangri í Skotlandi fyrir dreifðar byggðir þar í landi. Strax fylktum við okkur bakvið þá hugmynd að fara sömu leið og Skotar, sem nú er að verða að veruleika. Viljum við þakka Jónu Árnýju fyrir frumkvæði sitt og alla þá vinnu sem hún hefur lagt í að gera þetta að veruleika og einnig þeim ríflega sjöþúsund og sex hundruð meðlimum hópsins fyrir að halda þessari umræðu á lofti með því að segja sögur sínar, það er alveg ljóst að það hefur líka skipt miklu máli.

Flugrekstur er ekki ódýr, það átta sig allir á því, en við flugfélögin, ekki síst Air Iceland Connect sem er langstærst á þessum markaði, viljum við segja þetta: Nýtið þetta einstaka tækifæri sem ykkur er gefið til að endurnýja samband ykkar við okkur notendur. Standist þá freistingu að hækka verð og leyfið viðskiptavinum ykkar að njóta niðurgreiðslunnar til fulls. Leggið áherslu á að bæta rekstur ykkar í gegnum aukna notkun og betri nýtingu.

Fyrir okkur er þetta réttlætismál, í dag hefur aðgengi að sameiginlegri þjónustu okkar allra verið bætt. Nýtum okkur það.

Til hamingju með daginn!

Höfundar eru stofnendur hópsins: Dýrt innanlandsflug – þín upplifun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.