Bætur vegna skriðufalla á Seyðisfirði

Mikil mildi er að ekkert manntjón varð þegar aurskriður féllu á Seyðisfjörð í desember síðastliðinn. Ljóst er þó að orðið hefur mikið eignatjón en minnst 40 hús eru skemmd eftir skriðuföllin. Við atburði sem þessa vakna ýmsar spurningar eins og hvort tjónið sé bótaskylt, hverskonar tjón er bætt, fjárhæð bóta og hvort verja þurfi bótum til endurbyggingar eða hvort bætur séu greiddar án skilyrða.

Náttúruhamfaratrygging Íslands

Aurskriðurnar á Seyðisfirði eru dæmi um náttúruhamfarir sem flokkast undir „óviðráðanleg ytri atvik“ (vis major, force majeure). Eldgosið í Heimaey 23. janúar 1973 sýndi fram á mikilvægi þess að til væri sjóður til að standa undir kostnaði sem kynni að verða af völdum meiri háttar náttúruhamfara hérlendis. Með lögum nr. 52/1975 var komið á skylduvátryggingu sem átti að mæta tjónum sem verða af völdum slíkra náttúruhamfara. Stofnunin tók til starfa 1. september 1975 en þá hét stofnunin Viðlagatrygging Íslands. Í júlí 2018 var nafni stofnunarinnar breytt í Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ). NTÍ heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og starfar skv. sérlögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og reglugerð nr. 700/2019 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Lög um vátryggingasamninga nr. 30/2004 gilda svo um almennar forsendur fyrir bótaábyrgð. Meginhlutverk NTÍ er að vátryggja helstu verðmæti gegn náttúruhamförum.

Hvaða eignir eru tryggðar?

Samkvæmt 4. og 5. gr. laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands tryggir stofnunin beint tjón m.a. af völdum skriðufalla. Skriðufall er þegar skriða úr fjalli eða hlíð fellur skyndilega á vátryggðar eignir með þeim afleiðingum að þær skemmast eða eyðileggjast.

Húseignir eru vátryggðar. Miðað er við brunabótamat

Þær eignir sem fást bættar úr tryggingunni eru þær eignir sem eru vátryggðar skv. lögunum. Skylt er að vátryggja allar húseignir sem eru brunatryggðar hjá vátryggingafélagi, sem starfsleyfi hefur hér á landi. Einnig er skylt að vátryggja tiltekin mannvirki þótt þau séu ekki brunatryggð, t.d. hitaveitur, vatnsveitur og skólpveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs. Verðmæti vátryggðra eigna er ákveðið með hliðsjón af því hvert raunverulegt verðmæti þeirra var á verðlagi, þegar vátryggingaratburður varð. Er þar tekið tillit til verðrýrnunar vegna aldurs, notkunar, minnkaðs notagildis eða annarra ástæðna. Þar sem skylda er að vátryggja húseignir er ljóst að vátrygging er til staðar en stundum getur vantað inn í brunabótamatið þær breytingar eða viðbætur sem hafa verið gerðar eftir að eignin var metin í upphafi. Þetta getur verið bagalegt því bæturnar miðast við þetta mat og hvílir skyldan á eiganda að láta endurmeta eign þegar svo ber undir. Þá fellur utan tryggingarverndar NTI ýmis búnaður eða tæki á lóðum sem ekki telst hluti fasteignar, t.d. leiktæki, skýli og heitir pottar.

Lausafé er vátryggt ef það er brunatryggt

Lausafé er aðeins vátryggt ef það er brunatryggt hjá almennu vátryggingafélögunum. Bætur fyrir vöru, sem hefur verið framleidd til sölu skal verðleggjast á kostnaðarverði. Vörur í framleiðslu verðleggjast samkvæmt innkaupsverði á hráefni að viðbættum áföllnum kostnaði. Innkaupsverð og kostnaður miðast við verðlag á tjónsdegi. Hlutir sem hafa eyðilagst skulu metnir til raunverulegs verðmætis þeirra á tjónsdegi. Þegar um er að ræða hlut sem hefur ekki eyðilagst að fullu og hægt er að gera við miðast bæturnar við hvað kostar að gera við hann þannig að hann verði sem næst því eins og fyrir vátryggingaatburðinn. Bæturnar geta þannig aldrei orðið hærri en verðmæti þess hlutar sem hann var fyrir tjónsatburð. Sem dæmi mætti taka gamalt borðstofuborð sem hefur eyðilagst að hluta, bætur vegna borðsins yrðu aldrei að fjárhæð verðmætis nýs borðs. Í þessum tilvikum er mikilvægt að tjónþoli, hafi hann tök á því, varðveiti hið skemmda og gefi NTÍ kost á að skoða og meta tjónið áður en viðgerð hefst. Fargi tjónþoli, til að mynda, hlut sem var skemmdur gæti hann hafa fyrirgert rétti sínum til þess að fá hann bættan.

NTI tryggir aðeins beint tjón á vátryggðum húseignum, mannvirkjum og lausafé
Mikilvægt er að hafa í huga að NTÍ tryggir aðeins beint tjón á vátryggðu lausafé, húseignum og mannvirkjum. Beint tjón er tjón sem verður af völdum náttúruhamfarana. Óbeint tjón, er hins vegar tjón, sem leiðir af beina tjóninu. Sem dæmi má nefna að fullvíst megi telja að hús sem ekki hafa skemmst, en standa á svæði sem eftir skriðuföll verður skilgreint sem hættusvæði, eða hús stendur á skilgreindu áhættusvæði, en áhættumat hefur verið hækkað eftir skriðuföll, munu lækka í markaðsverði frá því sem var fyrir náttúruhamfarirnar. Þegar svo stendur á er um að ræða tjón í þeirri merkingu að eigandi fasteignarinnar getur ekki selt fasteignina á sama verði fyrir atburðinn og eftir atburðinn. Það tjón er hins vegar afleitt tjón, þ.e. það leiðir af þeim atburði sem varð. Þá geta rekstraraðilar á áfallasvæðum hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna þess að verulega dregur úr viðskiptum á meðan á hamförum stendur og eftir þær eða vegna rekstrarstöðvunar. Til að mynda mætti hugsa sér rekstrartap vegna þess að fasteign, sem hýsti kaffihús skemmdist, og getur því ekki verið nýtt sem kaffihús. Vátryggingavernd NTI nær ekki utan um slíkt tjón.

Af þessu er ljóst að ekki er allt tjón tryggt með lögunum og verður að skoða hvert tilvik fyrir sig um hvort og hvar sé hægt að sækja bætur. Þar kemur til álita aðrar almennar tryggingar sem viðkomandi hefur. Til að mynda ef atvinna hefur stöðvast verður að skoða hvort viðkomandi sé með rekstrarstöðvunartryggingu hjá sínu tryggingarfélagi. Þess ber þó að geta að almennt fellur bótaskylda rekstrarstöðvunartryggingar eða annarra trygginga frá almennu tryggingafélögunum niður við náttúruhamfarir. Tjón á bifreiðum og vélum sem eingöngu eru tryggð með ábyrgðartryggingu er ekki bætt skv. lögum um NTI. Verði tjón á eignum sem tengjast landbúnaði og er ekki bætt af NTI er vert að skoða Bjargráðasjóð, sbr. lög nr. 49/2009, en hlutverk hans er m.a. að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara.

Er kvöð á bótunum?

Samkvæmt 15. gr. laga um NTI skal tjónþoli nota vátryggingabætur til að gera við húseign sem hefur orðið fyrir tjóni vegna náttúruhamfara eða til að endurbyggja hana. Lögin gera ráð fyrir því að heimilt sé að veita undanþágu frá viðgerðar – og byggingarskyldu þessari að höfðu samráði við sveitastjórn og að uppfylltu því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni. Frádrættinum skal þó ekki beitt ef endurbygging er ekki heimil af skipulags – eða öðrum ástæðum sem tjónþoli ræður ekki. Má þá gera ráð fyrir að tjónþoli sem vill ekki endurbyggja húseignina sína á svæði sem þó er heimilt að endurbyggja á, fái bætur en þó að 15% séu dregnar frá bótunum. Séu hins vegar aðstæður þannig að viðkomandi sé óheimilt að byggja á tilteknum stað þá sé frádrætti þessum ekki beitt. Vert er þó að benda á að hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji NTI vátryggingafjárhæð greinilega hærri en markaðsverð húseignar er stofnuninni heimilt að miða við markaðsverð húseignar. Þegar þetta er skrifað hefur sveitastjórn Múlaþings samþykkt að óheimilt verði að endurbyggja hús á tíu lóðum, þar af fimm íbúðarhúsalóðum, fyrr en hættumat liggur fyrir og gerðar hafa verið fullnægjandi ráðstafanir á ofanflóðavörnum á tilteknum svæðum. Krafa um endurbætur eða endurbyggingu og hugsanlega frádrátt skv. þessari grein á eftir að koma nánar í ljós þegar fram sækir. Ræðst slíkt af atriðum sem ekki eru ljós í dag, svo sem hvort yfirvöld leyfi mannvirkjagerð og íbúabyggð á vissum svæðum og hvort og þá hvaða undanþágur verða veittar í þessum efnum.

Andmælaréttur og kæruleiðir

Þegar vátryggingaratburður verður skal tjónþoli tilkynna það til NTÍ eða vátryggingafélags sem hann er í viðskipum við svo fljótt sem unnt er. Þá skal stofnunin gera ráðstafanir til að fá úr því skorið hvort bæta skuli tjónið og eftir atvikum láta meta það. Tjónþoli skal eiga þess kost á að vera viðstaddur skoðun og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við matsmann eða -menn. NTI er opinber stofnun og um hana gilda stjórnsýslulög um meðferð mála. Í samræmi við þetta hafa tjónþolar tækifæri til að andmæla áður en ákvörðun um tjónabætur eru teknar. Þá er mikilvægt að árétta að tjónþoli getur kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar náttúruhamfaratryggingar innan 30 daga frá því að honum barst ákvörðunin.

Höfundur er lögmaður og svæðisstjóri Pacta á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.