Íbúðalánasjóður og aðrar lánastofnanir sem lánuðu verðtryggð, íslensk íbúðarlán, eiga tímabundið að leysa inn veð, eignast veðhluta í húsum fólks og aflétta tímabundið lánum í kjölfar þess. Þetta er hugmynd Gunnars Þórs Sigbjörnssonar á Egilsstöðum um hvernig íbúðaeigendur og lánastofnanir geti sameiginlega tekist á við ástandið, áður en fólk lendir í vanskilum og verður eignalaust. Nánar verður fjallað um hugmynd Gunnars í Kastljósi Sjónvarps, væntanlega í kvöld.
,,Þetta gengur út á að grípa inn í eignarhald á húsum í dag og að lánasjóðirnir setji í gang hálfgert Búsetakerfi tímabundið til að slökkva eignabálið,“ segir Gunnar. ,,Lánasjóðir tækju yfir sinn veðhluta, hann yrði innleystur tímabundið og menn myndu í rauninni bara borga leigu. Síðan yrðu gerð endurkaup eftir eitt til tvö ár og þá kæmi í ljós á hvaða verði þessi einstaki hlutur væri metinn á og á hvaða kjörum viðkomandi stofnanir væru að lána. Þetta myndi þýða að áhættan dreifðist á báða aðila.“Gunnar segir ljóst að ef fólk sjái eignarhlut sinn brenna upp muni margir skoða þann kost sem Vésteinn Gauti Hauksson sagði frá í Kastljósi í gærkvöld, en hann sagðist ætla að skila inn íbúð sinni til bankans. Hann væri nú búinn að missa tæplega 30% eignarhlut sinn niður í 0 á stuttum tíma og vel það. Hann sagðist í þættinum sjá fyrir sér að missa íbúðina og verða stórskuldugur að auki.Gunnar segir að í gærkvöld hafi Vésteinn Gauti nánast kennt almenningi hvernig skila á inn lyklunum. ,,Þá ákvað ég að koma fram með mína hugmynd um hvernig við getum komið í veg fyrir að heil runa af fólki fari út í slíkt. Sem betur fer eiga margir enn í húsunum sínum og horfa nú ósjálfbjarga upp á eignir sínar brenna á verðbólgubálinu. Þær lausnir sem hafa komið fram hingað til, eru að búið er að taka upp vísitölu sem á að vera mildari gagnvart afborgunum, en með því er aðeins verið að fresta vandanum. Menn hafa verið að tala um að taka út verðtrygginguna, en þá hafa komið aðrar raddir frá lífeyrissjóðunum um að það megi ekki. Það er því hálfgerð pattstaða í málunum.“Gunnar telur að eina leiðin sem eftir er sé því að samningsaðilar setjist niður, þ.e. húseigandi og sá sem á veðið í húsinu og geri tímabundinn samning um að viðkomandi aðili innleysi, húseigandinn borgi leigu og ef hann eða maki veikist eða verði fyrir tekjutapi eigi fólkið hugsanlega rétt á húsaleigubótum og þar sé þá komið stuðningskerfi við þennan gjörning. ,,Við værum þá að opna alveg nýja leið í þessu öllu saman. Þá verður ákveðinn hvati til að borga leiguna því fólk er að vernda eignarhlutinn sinn. Þetta mætti kalla róttækar aðgerðir. Núna verða allir sem hafa hugmyndir að koma með þær fram því okkur veitir ekki af að finna raunhæfar leiðir til bjargar.“
Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.