Blá lítil bók

Fyrir nákvæmlega ári fengum við skötuhjú þær stórkostlegu fréttir að annað okkar hefði unnið í happadrætti. Ekki venjulegu happadrætti reyndar, það voru engir fjármunir í spilinu. Vinningurinn var ekki af verri endanum, lítil, blá bók sem táknar frelsið sjálft. Við vorum bæði orðnir íslenskir ríkisborgarar.

Við sem fædd erum á Íslandi veltum því kannski sjaldan fyrir okkur hversu mikil forréttindi felast í því að eiga þessa litlu bláu bók – vegabréfið okkar. Við sýnum það án vandræða til þess að komast inn í þau lönd sem við ákveðum að heimsækja hverju sinni. Týnum því kannski, ekkert mál, við fáum nýtt eins og skot. Sjálf leiddi ég sjaldan hugann að þessum forréttindum áður en ég sá með eigin augum hvernig lífið getur verið án þeirra. Tók þessum réttindum sem algjörlega sjálfsögðum hlut, sem þau ættu vissulega að vera en eru alls ekki. Ég gerði ekkert til að öðlast þau, ég var bara heppin. Fæddist í réttu landi á réttum tíma, foreldrum með íslenskt ríkisfang. Meira þurfti ekki að hafa fyrir þessu.

Áður en vegabréfið kom í hús var maðurinn minn handhafi sýrlensks vegabréfs. Það er reyndar líka blátt á litinn, bara aðeins dekkra. Og það kemur þér ekki neitt. Það getur jafnvel verið ógn við frelsi þitt og öryggi – allt eftir því hver meðhöndlar það hverju sinni. Meðfram sýrlenska vegabréfinu var hann þó með belgískt dvalarleyfi, sem gerði honum kleift að ferðast og búa innan Schengen-svæðisins. Þau réttindi eru alveg skýr, en viðmót landamæravarða gaf það heldur betur ekki alltaf í skyn. Best var að afhenda þeim bréfin í bunka – mitt ofan á hans. Fólk á það nefnilega til að hoppa af kæti við að sjá íslenska vegabréfið – segja frá ferðum sínum til Íslands eða draumum um að ferðast þangað. Alltaf kammó. Svo kíkja þau á næsta vegabréf og drungi færist yfir andlit þeirra. Það þarf að skoða þetta betur. Yfirheyrsla, nánari skoðun, kanna hvort þarna sé svindlari á ferð. Stundum samúð vegna ástandsins í landinu hans, en miklu oftar harka.

„Áður fyrr brást fólk við eins og það gerir þegar þú segist vera frá Íslandi“ sagði hann einu sinni. Ég hafði ekki einu sinni leitt hugann að því. Fyrir ekkert svo mörgum árum þótti Sýrland eftirsóknarverður ferðamannastaður og fólk sagði „vá, Sýrland!“ í aðdáunartón þegar þjóðerni hans bar á góma. Hann hafði aldrei grunað að staðan yrði eins og hún er nú. Að þetta yrði hlutskipti hans og milljóna landa hans. Að hann þyrfti að eignast nýtt vegabréf til þess að verða aftur álitin manneskja í kerfum heimsins. Til að geta hitt fjölskylduna sína og gert allt það sem við tökum sem svo sjálfsögðum hlut, en þannig er heimurinn núna.

Frelsið er það dýrmætasta sem við eigum og við ættum aldrei að nýta okkar eigið frelsi til að svipta annað fólk þeirra. Fólk á ekki að þurfa að vinna í einhverju happadrætti á Alþingi til að geta um frjálst höfuð strokið. Heimurinn er óútreiknanlegur staður, en fólk er fyrst og fremst fólk, sama hvernig vegabréfið þess er á litinn.

Áður birt í 22. tbl. Austurgluggans 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.