Brýn verkefni framundan

Helena Þuríður Karlsdóttir skrifar:  

   Samfylkingin í Norðausturkjördæmi efnir til opins rafræns prófkjörs dagana 5.-7. mars nk. Kosið er um 8 bindandi sæti.

helena_karlsdttir-mynd.jpg

 

Gengið er til kosninga undir óvenjulegum kringumstæðum. Eftir hrun íslensks þjóðfélags er mikið verk framundan við endurreisn þess. Það eru erfiðir tímar framundan og brýnt að koma heimilunum og fyrirtækjunum til aðstoðar. Það er forgangsverkefni að standa vörð um velferðarkerfið til að hægt sé að koma til móts við þá sem standa höllum fæti en öflugt velferðarkerfi er undirstaða samfélagsins og mikilvægi þess hefur sjaldan verið meira en nú. Mikilvægt er að styðja við heimilin í landinu og lágmarka fjárhagslegan og félagslegan skaða fólks af völdum efnahagsástandsins.

Endurreisa þarf fjármálakerfi landsins svo halda megi hjólum atvinnulífsins gangandi og vinna þarf bug á sívaxandi atvinnuleysi. Verkefni okkar er að horfa fram á veginn og hefja kröftugt uppbyggingarstarf. Við eigum að fara í opinberar og mannaflsfrekar framkvæmdir, styðja við frumkvöðlastarf, efla ferðaþjónustuna og rannsaka auðlindir þjóðarinnar í sjó og á landi og nýta þær á skynsamlegan hátt til að skapa arðbær framtíðarstörf. Það er okkar ábyrgð og okkar skylda að leita allra leiða til að skapa arðbær störf.

Önnur mikilvæg mál eru samgöngumálin en góðar samgöngur eru forsenda byggðaþróunar og atvinnu á landsbyggðinni. Eins er brýnt að lækka flutningskostnað þar sem hann er að sliga mörg landsbyggðarfyrirtæki. Enn fremur tel ég að við eigum að kanna möguleika á strandsiglingum. Síðast en ekki síst er mikilvægt að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni.

Sem sveitarstjórnarmanni eru mér málefni sveitarfélaganna hugleikin og ég tel að efla eigi sveitarfélögin með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Aldrei fyrr hefur aðgengi að menntun verið eins mikilvæg. Brýnt er að auka menntunarmöguleikana og tengja menntunin meira við atvinnulífið. Menntun er fjárfesting í framtíðar.

Nú líður senn að lokum prófkjörsins. Baráttan hefur verið mjög stutt og snörp. Ég vil hvetja alla áhugasama til að taka þátt í prófkjörinu. Ég óska eftir stuðningi í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

 

Höfundur er lögfræðingur og bæjarfulltrúi á Akureyri og sækist eftir 3. sæti á lista Samfylkingarinnar  í Norðausturkjördæmi

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar