Cittaslow í Múlaþingi

Árið 2016 fluttum við fjölskyldan til Djúpavogs þar sem ég hafði fengið vinnu. Þetta var stór ákvörðun fyrir okkur og fannst mér mikilvægt að ég gæti tryggt okkur sambærileg og vonandi betri búsetuskilyrði en í Reykjavík. Staðurinn þurfti að uppfylla ákveðin skilyrði eins og að maðurinn minn fengi vinnu, góðan skóla og leikskóla, eftirskólastarf og læknir.

Sérstaða

Djúpivogur uppfyllti öll helstu skilyrði og við fluttum austur. Bærinn var fullur af börnum, lögð var áhersla á fjölbreytta atvinnuhætti og menningarstarfið var blómlegt. Samfélagið var ein stór fjölskylda og var okkur nýbúunum vel tekið. Nokkrum árum áður en við fluttum austur hafði samfélagið á staðnum þurft að berjast fyrir tilvist sinni eftir að stærsti atvinnuveitandi svæðisins færði starfsemina sína suður. Samfélagið og sveitarfélagið brást við með því að horfa á umhverfið sem sinn styrkleika ásamt því sem öflugir aðilar tóku að sér að byggja fiskvinnslu svæðisins upp. Bærinn er fyrsti og eini Cittaslow bær landsins, þar er fyrsta staðfesta Verndarsvæði í byggð og umhverfisvernd og hæglæti varð hluti af lifnaðarháttum bæjarbúa.

Múlaþing hefur fengið stór og erfið verkefni á sínum stutta líftíma og verður vissulega að horfa til þess að sveitarfélagið er aðeins rúmlega tveggja ára gamalt. En nú þarf hið unga og efnilega Múlaþing að horfa til þeirra góðu verkefna sem gömlu sveitarfélögin höfðu sett sér, líkt og í tilefni Cittaslow á Djúpavogi.

Hver er framtíð Cittaslow í Múlaþingi?

Djúpavogshreppur skuldbatt sig til að vinna að 72 viðmiðum með því að gerast aðili að Cittaslow-hreyfingunni. Þessi viðmið miða að því að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að heiðra sérstöðu, vitund og sjálfbærni en það eru markmið Cittaslow. Lítið hefur heyrst af því hver framtíð Cittaslow er innan Múlaþings. Að vera Cittaslow er stefna sem sveitarfélagið hefur skuldbundið sig að tilheyra og hefur það meðal annars verið innleitt inn í skólakerfið. Það að vera Cittaslow hefur vakið eftirtekt og sérstöðu og er því mikilvægt að halda þeirri vegferð áfram og tryggja að við séum að fylgja þeim skuldbindingum sem Djúpavogshreppur hafði sett sér.

Í málefnum Cittaslow kemur hlutverk heimastjórna sterkt inn en þær hafa meðal annars umsjón með menningarverkefnum. Heimastjórnarkerfið er ungt og er þetta í fyrsta sinn sem slíku er komið á. Það er mikilvægt eftir þetta fyrsta kjörtímabil þeirra, að farið sé yfir hvað hefur vel verið gert og hvað má fara betur, og þar á meðal er málefni Cittaslow.

Höfundur er íbúi í fyrrum Djúpavogshreppi og er í 4. sæti á lista VG til sveitarstjórnarkosninga í Múlaþingi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar