Dagur íslenskrar tungu og hlutverk Austurbrúar
Dagur íslenskrar tungu er í dag, þann 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Markmið hans er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu. Á tímum þegar um fimmtungur íbúa á Íslandi er af erlendum uppruna skiptir íslenskukunnátta þessa hóps sífellt meira máli til að efla samfélagslega þátttöku hans og atvinnumöguleika.Stjórnvöld samþykktu nýverið aðgerðaáætlun til að tryggja að íslenskan verði raunverulegt sameignartungumál landsins, með því að auka aðgengi innflytjenda að íslenskunámi og bjóða fjölbreytt úrræði í námi og kennslu.
Aukin þátttaka og námsframboð á Austurlandi
Austurbrú hefur í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Rannís og fræðslusjóði stéttarfélaga stóraukið framboð á íslenskunámskeiðum. Námskeiðin eru haldin í öllum þéttbýliskjörnum Austurlands en einnig er boðið upp á námskeið sérsniðin að óskum fyrirtækja og stofnana. Árið 2020 sóttu um 140 manns íslenskunám hjá Austurbrú en árið 2024 hefur sú tala meira en tvöfaldast og eru nú um 300 nemendur skráðir. Námið er þrepaskipt og bæði boðið upp á stað- og fjarkennslu sem veitir þátttakendum aukið svigrúm og aðgengi. Austurbrú vinnur auk þess að þróun Lísu sem er smáforrit fyrir íslenskukennslu sem veita mun stuðning við íslenskunámið.
Stór hluti þátttakenda á íslenskunámskeiðum er í fullri vinnu sem getur gert það krefjandi fyrir þá að stunda nám utan hefðbundins vinnutíma. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir styðja við íslenskunám starfsfólks á vinnutíma. Þessi stuðningur er ekki aðeins mikilvægur fyrir þá sem eru að læra tungumálið, heldur styrkir hann líka vinnustaðina sjálfa með því að efla íslenskukunnáttu starfsfólks og þar með bæta samskiptin. Með markvissu íslenskunámi og víðtækum stuðningi við þá sem vilja efla færni sína leggjum við grunn að samfélagi þar sem allir geta átt hlutdeild í íslenskri menningu og tungumáli.
Viðurkenning á færni
Austurbrú hefur undanfarin ár haldið ríkisborgarapróf í samstarfi við Mími Símenntun sem með samningi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu ber ábyrgð á fyrirlögn íslenskuprófa fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt. Undanfarin ár hafa þessi próf verið í boði einu sinni á ári á Austurlandi. Á árunum 2020-2022 tóku um sjö einstaklingar á ári prófið en þeim hefur farið mjög fjölgandi. Árið 2023 tóku 15 manns prófið og fyrir árið 2024 hefur Austurbrú óskað eftir því að halda prófið tvisvar á ári þar sem áhuginn hefur rúmlega tvöfaldast.
Fyrir þá sem vilja styrkja stöðu sína enn frekar býður Austurbrú upp á náms- og starfsráðgjöf ásamt raunfærnimati sem sífellt fleiri nýta sér. Raunfærnimatið staðfestir færni og reynslu einstaklinga og getur hjálpað við að stytta nám eða staðfesta hæfni á vinnumarkaði. Þetta úrræði er því öflugur hvati fyrir einstaklinga til að vaxa í starfi eða leita í frekara nám. Það eykur möguleika þeirra á að aðlagast samfélaginu enn betur og nýta hæfileika sína til fulls.
Hlustum á þarfir og tökum þátt
Austurbrú vinnur að fjölbreyttum og metnaðarfullum verkefnum sem styðja innflytjendur á Austurlandi og styrkja stöðu þeirra í samfélaginu. Með því að hlusta á þarfir þessa hóps og skapa heildræna þjónustu sem tengir menntun, atvinnu og félagslega aðlögun leggjum við grunninn að samfélagi sem metur fjölbreytileikann að verðleikum. Vinnum saman að því að efla kunnáttu í íslensku og stuðla að aukinni notkun hennar, þar sem jaðarsetning er óásættanleg, inngilding er í forgrunni, og framtíð íslenskrar tungu tryggð.
Höfundur er yfirverkefnastjóri fræðslumála hjá Austurbrú. Austurbrú er aðili að Símennt – Samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva.