Draumalandið Austurland

Fyrir stuttu skrifaði ég grein: Er byggðastefna á Ísland? Já og ef hún hefði nafn kallaðist hún allir suður. Í þessari grein fer ég yfir framtíðarsýn mína fyrir Austurland.


Í fyrri grein minni fór ég yfir það sem mér hefur fundist að í þeirri stefnu, sem er að byggja allt miðlægt upp á höfuðborgarsvæðinu. Sú stefna hefur valdi gríðarlegri ójafnvægi í búsetu sem sést best á því að 80% landsmanna búa á svæðinu frá Borgarnesi að Selfossi. Á Austurlandi, frá Höfn að Vopnafirði, búa rétt um 3% landsmanna.


En það eru ekki bara ákvarðanir fólks fyrir sunnan sem eru vandamálið. Vandinn er líka hjá okkur sem hér búum. Hingað til höfum við ekki búið okkur til framtíðarsýn fyrir Austurland. Framtíðarsýn sem við getum sameinast um að berjast fyrir að verði að veruleika.

Þetta er mín framtíðarsýn


Draumalandið Austurland er níu þúsund manna kjarnasvæði á mið Austurlandi tengt saman með Samgöngum. Draumalandið Austurland er orðið nægilega stórt og sterkt til að keppa um fólk og fyrirtæki og vaxa enn frekar. Mið-Austurland nærir nærliggjandi byggðir og sveitir. Þjónusta á einum stað verður þjónusta allra staðanna, aðstaða hvers staðar verður aðgengileg öllum. Íbúi á Egilsstöðum getur sótt sér þjónustu með einföldum hætti í Neskaupstað og öfugt með því að keyra á öruggum, heilsárs-, láglendisvegi.

Draumalandið Austurland verður eins og hverfi í Reykjavík þar sem fólk býr í Grafarvogi en vinnur út á Granda og sækja íþróttir í Vesturbæinn. Það skiptir minna máli hvar þú býrð, þú hefur alltaf aðgengi að þeirri grunnþjónustu sem þú þarfnast.

Í dag er hver byggðakjarni á Austurlandi of lítill til að bjóða íbúum upp á allt það sem vantar og sérstaklega ungu fólki sem flyst í burtu. Unga fólkið fer í skóla að mennta sig eða sækir í aukin tækifæri sem fylgja stærri og fjölmennari íbúasvæðum og langflestir koma ekki aftur því okkur hefur ekki tekist að búa til nægilega góðar aðstæður hér.

Sameiginlega er mikil þjónusta, afþreying og aðastað á Austurlandi en svo hún nýtist þarf að tengja saman fjölmennustu og sterkustu byggðirnar með Samgöngum. Með því að gera það munu lykilstofnanir og lykilfyrirtæki tengjast betur. Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupsstað mun tengist alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum, hafnir, ferja og flugvöllur tengjast saman sem opnar á fjölmörg tækifæri til inn- og útflutnings. Verkmenntaskólinn Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum munu styrkjast og þetta gefur þeim aukið tækifæri til að veita betri þjónustu og vinna saman. Með þessu væri kominn sterkari grunnur til að koma á háskólanámi í fjórðungnum sem er eitt af lykilatriðum sterks samfélags.

Með Samgöngum tengjast íbúar á Egilsstöðum sterkum atvinnufyrirtækjum í sjávarútvegi og áli með betri og öruggari hætti. Að sama skapi tengjast firðirnir betur opinberri þjónustu og afþreyingu á Héraði og saman myndar þetta öfluga heild sem gefur Akureyri og Eyjarfjarðarsvæðinu ekkert eftir.

Með hringtengingu á mið Austurland yrði landshlutinn ekki lengur stoppistöð fyrir ferðamenn heldur áfangastaður. Hann gæti með betri hætti dvalið hér í nokkra daga og kynnst öllu því besta sem svæðið hefur uppá að bjóða. Með slíkri hringtengingu væri einnig búið að auka möguleika Egilsstaðaflugvallar sem virks millilandaflugvallar til muna.

Í dag er gríðarlega vannýtt aðstaða og þjónusta á svæðinu sem íbúar gætu nýtt sér mikið betur með Samgöngum. Austurland yrði betur í stakk búið til að krefjast meiri og betri opinberrar þjónustu og verkefna. Hið opinbera gæti ekki hunsað svona vaxtarsvæði.

Í Draumalandinu myndi betra aðgengi fjölga störfum um tugi eða hundruð á sjálfbæran hátt. Verslunin á Norðfirði er ekki lengur verslun fyrir 1400 íbúa heldur hafa 9000 manns gott aðgengi að henni. Með stærra markaðssvæði opnast möguleikar á að halda úti öflugra félagsstarfi og afþreyingu. Betri grundvöllur fyrir kvikmyndahús, leikhús eða hverju öðru sem fjölmennari svæði geta boðið uppá og við sækjum í miklum mæli norður eða suður. Þetta mun virka sem segull á unga fólkið okkar, að flytja aftur heim til að nýta þau tækifæri sem hér eru.

Í dag er Austurland ekki ein heild, byggðarkjarnar eru smáir, dreifðir og illa tengdir og því virkar samfélagið ekki sem skildi. Samgöng eru líkleg til að ná að leysa úr læðingi þann kraft sem býr á svæðinu og hámarka það sem við getum gert saman.

Gerum draumalandið Austurland að veruleika.

draumalandid aland

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.