Draumastörfin eru hér
Þann 19. september ætlum við að slá upp veislu á Austurlandi. Við ætlum að kynna fyrir ungu fólki þau störf sem eru unnin í heimabyggð á Starfamessu Austurlands 2024 sem fram fer í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Með þessum viðburði ætlum við að freista þess að ungt fólk á Austurlandi muni sjá enn skýrar að framtíðartækifærin geta verið í heimabyggð.Hér er ekki bara gott að búa - hér er líka gott að starfa.
Við þurfum fólk
Á Austurlandi eru rekin öflug og alþjóðlega samkeppnishæf framleiðslufyrirtæki sem veita stórum hluta Austfirðinga vel launaða vinnu. Þetta öfluga atvinnulíf er í stöðugri þróun og kallar eftir vinnuafli með fjölbreytta og góða menntun í farteskinu, tækniþekkingu, verkkunnáttu, hugvit og sköpunarkraft.
Ferðaþjónustan hefur tekið gríðarlegum framförum á síðustu árum, hún hefur vaxið hægt en stöðugt, og okkur hefur tekist að byggja upp atvinnugrein sem einkennist af fagmennsku og ábyrgð. Tækifærin í austfirskri ferðaþjónustu eru mörg og bíða eftir öflugum frumkvöðlum til að nýta sér þau.
Og í raun má segja það sama um flestar greinar atvinnulífsins á Austurlandi. Þær eru í sókn
Atvinnulífið á Austurlandi veitir trausta atvinnu, skapar miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og framtíðarhorfurnar eru góðar. Það er fyrirséð að það mun eflast enn frekar á næstu árum með tilheyrandi mannaflsþörf.
Samfélagsverkefni
Það er því afar brýnt verkefni fyrir okkur sem samfélag að halda í unga fólkið okkar og á sama tíma laða það til okkar. Við þurfum fólk sem er tilbúið að grípa tækifærin og taka þátt í áframhaldi vexti svæðisins á næstu árum og áratugum.
Þetta er helsti tilgangur Starfamessu Austurlands 2024 sem Austurbrú, sveitarfélögin fjögur og framhaldsskólarnir standa fyrir. Öll eru velkomin á hana en við ætlum að bjóða sérstaklega nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla ásamt fyrsta árs nemum framhaldsskólanna til okkar á skólatíma. Við reiknum með að ekki færri en 400 nemendur frá skólum í Múlaþingi, Fjarðabyggð og Vopnafjarðarhreppi komi.
Takið þátt!
Ég hvet fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi að nýta þetta einstaka tækifæri til að hitta unga Austfirðinga. Ykkur býðst að setja upp sýningarbás þar sem starfsmenn ykkar geta kynnt fyrir nemendum þau störf sem unnin eru, í hverju eru þau fólgin, hvaða menntunar og færni þau krefjast.
Á Starfamessunni fáið þið tækifæri til að hitta ungt fólk á Austurlandi augliti til auglitis og fáið spurningarnar beint í æð.
Þetta verður gaman. Ég lofa því!
Og þátttaka kostar ekkert nema tímann og fyrirhöfnina.
Áhugasömum er bent á heimasíðu Austurbrúar þar sem allar nánari upplýsingar er að finna.
Höfundur er framkvæmdastjóri Austurbrúar.