Draumurinn um VG í Fjarðabyggð er orðinn að veruleika

Það hefur verið draumur minn síðan 2010 að VG bjóði fram hér í Fjarðabyggð. Ég viðraði þessa hugmynd 2014 og svo enn aftur 2018. Það virtist alveg ljóst að virkir VG liðar væru einfaldlega of fáir í sveitarfélaginu til að þetta væri hægt.

Það var svo núna fyrir þessar kosningar sem mér var boðið í kaffi með nokkrum hugrökkum konum og þessi hugmynd var enn viðruð. Ég lýsti því yfir að ég væri til í að vera með. Ég lá hins vegar ekkert á þeirri skoðun minni að ég teldi þetta afar hæpið því við værum einfaldlega of fá og ég teldi útilokað að finna 18 manneskjur til að vera á þessum lista.

Of margar konur?

Einhverra hluta vegna hefur það nánast verið tabú að vera í VG á þessu svæði. Fólk hefur hvíslað að mér að það hafi kosið VG og að það sé ánægt með mig. En fá hafa viljað segja það upphátt eða lýst yfir stuðningi. Ein vinkona mín sem er fyrir löngu flutt frá Austurlandi sagði eitt sinn við mig: „Hvenær var gefið út skotleyfi á þig Ingibjörg? Þegar þú segir eitthvað þá þykir það í góðu lagi fyrir austan að svara þér með dónaskap og útúrsnúningum.“

Það kom mér því skemmtilega á óvart þegar þetta gekk upp. Að lokum voru það fleiri en 18 sem vildu vera með. Þetta voru að vísu nánast allt konur en eftir að hafa skoðað kynjahlutfallið í sveitarstjórnum undanfarin ár varð okkur þó fljótt ljóst að offramboð á konum væri sannarlega ekki vandamál.

Við erum komin út úr skápnum

Og nú hefur draumurinn orðið að veruleika. Sjáið þessar konur! Þær eru frábærar. Listinn samanstendur af sterkum konum víðsvegar úr Fjarðabyggð og einum afar hugrökkum karlmanni. Og ég, sem hef stundum upplifað mig einu VG manneskjuna á svæðinu, færðist bara neðar og neðar á listann eftir því sem fleiri bættust í hópinn.
Það hefur verið stórkostlega skemmtilegt að kynnast öllu VG fólkinu sem virðist hafa verið í felum í öll þessi ár. Núna erum við komin út úr skápnum og segjum stolt að við séum í VG.

Við höfum nú þegar sigrað þessar kosningar. Við höfum haft áhrif á umræðuna. Við höfum sett mál á dagskrá með greinarskrifum og stundum hafa hinir flokkarnir fylgt á eftir. Það er frábært að sjá Sjálfstæðisflokkinn tala um opið bókhald og Fjarðalistann taka alvöru umræðu um jafnréttismál.

Umhverfismálin hljóta að vera næst. En við trúum því að það komi. Þið verðið að fara að horfast í augu við að við búum hér öll saman og verðum að hugsa um komandi kynslóðir. Öll uppbygging verður alltaf að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Við megum ekki ganga svo á náttúruna að hún verði sködduð og löskuð fyrir komandi kynslóðir. Við eigum bara þessa einu jörð og eins og skáldið sagði: „Við erum gestir og hótelið okkar er jörðin.“

Við erum komin til að vera

Framboð VG í Fjarðabyggð er komið til að vera. Við ætlum að hafa hátt og við ætlum að hafa áhrif. Ef þú kjósandi góður vilt að hugsað sé lengra en nokkur ár fram í tímann og að ákvarðanir sé metnar út frá fleiri þáttum en krónum og aurum þá kýst þú þessar frábæru konur, þessar frábæru Önnur og setur X við V þann 14. maí.

Höfundur er Ingibjörg Þórðardóttir sem hefur verið ritari og varaþingmaður VG, formaður Kjördæmisráðs VG í NA og formaður Svæðisfélags VG á Austfjörðum og skipar 11. sæti lista VG í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar