Ef Framsókn ætlar að sækja fram

Á þessu kjörtímabili hefur Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn náð gríðarlegum árangri. Efnahagslífið er í sögulegum vexti með tilheyrandi áhrifum á hag heimilanna og launakjör almennings. Þá hefur markvisst verið unnið að eflingu byggðarlaga í landinu og ójöfnuður farið minnkandi. Því miður endurspeglast þessi árangur ekki í fylgi við flokkinn.


Þessi góði árangur veitir Framsóknarmönnum gullið sóknartækifæri í komandi þingkosningum. Stefna Framsóknarflokksins ætti að endurspegla skoðanir fleiri en 9% þjóðarinnar, enda fetar flokkurinn frjálslynda miðjustefnu, sem leitar lausna bæði til hægri og vinstri, en festir sig ekki í kreddum. Fáir ungir kjósendur geta hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn eins og staðan er í dag, þrátt fyrir þessa góðu stefnu og góðan árangur ríkisstjórnarinnar. Það er því ljóst að breytinga er þörf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leiddi Framsóknarflokkinn í gegnum glæsilegan kosningasigur fyrir þremur árum. En einn glæstur kosningasigur leysir hann ekki undan pólitískri ábyrgð fyrir að hafa haldið leyndum hagsmunum sínum í Wintris-málinu og fordæmalausum viðbrögðum hans við uppljóstruninni.

Síðan Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem forsætisráðherra hefur ríkt meiri eining og sátt innan ríkisstjórnarinnar. Sigurður Ingi hefur sýnt það og sannað síðustu mánuði að hann er vel hæfur til þess að vera í forsvari fyrir Framsóknarflokkinn og þjóðina. Hann býr yfir mikilli ró og staðfestu, eiginleikum sem ná til breiðs hóps kjósenda. Sigurður Ingi er sá sem ég treysti best til þess að leiða Framsóknarflokkinn í komandi kosningabaráttu.

Ég hvet því Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra Íslands, til þess að gefa kost á sér til formanns á flokksþingi Framsóknarflokksins í október næstkomandi.

Höfundur er Fáskrúðsfirðingur, stjórnarmaður í Sambandi ungra Framsóknarmanna og hjúkrunarfræðinemi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar