Ég er stoltur bakvörður. En þú?

„Er þetta ekki örugglega dóttir þín á þessari mynd,“ sagði björgunarsveitarmaðurinn sem hafði samband við mig á Facebook til þess að fá leyfi til að birta myndina á síðu sveitarinnar eftir flugslysaæfingu sem fram fór á Egilsstaðaflugvelli á dögunum.


Um reglubundna æfingu var að ræða þar sem farið var yfir flugslysaáætlun fyrir Egilsstaðaflugvöll en slíkt er gert á þriggja til fjögurra ára fresti. Að æfingunni stóðu ISAVIA og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og var hún ætluð starfsfólki flugvalla, björgunarsveitum, sjálfboðaliðum Rauða krossins, lögreglu, slökkviliði, heilbrigðisstarfsfólki og fleirum.

Jú, þetta var dóttir mín. Í sjúkrabörum með stórt sár á enninu og nokkuð glaðbeitt að sjá miðað við aðstæður. Í sjúkrabíl sem nýbúið er að breyta þannig að „striker-börur“ komist inn í hann, að sögn björgunarsveitarmannsins.

Þrátt fyrir að vita mætavel að myndin væri sviðsett og ekkert amaði að barninu fékk ég samt sting í magann. Hugsaði ósjálfrátt með hlýhug til björgunarsveita landsins, þeirra mörg hundruð sjálfboðaliða sem alltaf eru boðnir og búnir til að koma samborgurum sínum til hjálpar alla daga ársins og oft við erfiðar og hættulegar aðstæður. Hvað veit ég nema einn daginn lendi einhver mér nákominn á þessum börum í alvarlegum aðstæðum. Hvað þá?

Slysavarnarfélagið Landsbjörg er um þessar mundir í kynningar- og fjáröflunarátaki. Um miðjan september stóðu félagið og Stöð 2 fyrir söfnunarþætti í beinni útsendingu þar sem yfirskriftin var: „Þú getur alltaf treyst á okkur - nú treystum við á þig.“ Markmið útsendingarinnar var að safna bakvörðum sem styrkja starf félagsins með mánaðarlegum framlögum.

Innan Landsbjargar starfa 4.233 sjálfboðaliðar og félagið býr yfir 655 björgunartækjum. Alls eru 93 björgunarsveitir og 33 slysavarnarsveitir starfandi um allt land á vegnum félagsins sem sinna um 1.787 útköllum á ári, sem eru að meðaltali 3-4 á dag.

Sjálf gerðist ég bakvörður Landsbjargar eftir leitina að Birnu fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef aldrei starfað í björgunarsveit og sé ekki fyrir mér að ég muni nokkru sinni gera það. Þetta er hins vegar mitt framlag til þess að styrkja og styða við bakið á björgunarsveitum landsins.

Bakvarðasveitin er öflugasti og fjölmennasti stuðningshópur Landsbjargar og leggur sitt af mörkum til að tryggja öryggi þitt, þinna nánustu og allra hinna. Mánaðarleg upphæð er að lágmarki 2.000 krónur sem er minna en við greiðum fyrir 16 tommu pizzu. Einnig er hægt að leggja fram eingreiðslu ef við sjáum ekki fram á að geta látið okkar af hendi rakna mánaðarlega. Best er að fara inn á heimasíðuna landsbjorg.is og ganga frá málinu þar en eflaust er hægt að hafa bara samband við sína sveit til þess að fá nánari upplýsingar og leiðbeiningar ef þarf.

Nú er veturinn farinn að minna á sig og færð fer að spillast, svo ekki sé minnst á rjúpnaveiðitímabilið sem er handan við hornið. Þá er gott að vita af Landsbjörgu ef eitthvað kemur upp á. Nú spyr ég: Ert þú nú þegar í bakvarðasveitinni? Ef ekki, ætlar þú þá ekki að ganga til liðs við hana? Við getum alltaf treyst á björgunarsveitirnar og er ekki sanngjarnt að þær geti á móti treyst á okkur öll?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar