Ég er viðrini!
Nánar tiltekið flokkpólitískt viðrini. Ég get ekki réttlætt að ofurselja mig stefnu stjórnmálaflokks og halda með honum eins og fótboltaliði. Fyrir vikið telja einhverjir mig vanhæfan til að sitja í sveitarstjórn. Ég tel hins vegar forherta flokksgæðinga síst til þess fallna að taka ákvarðanir samfélaginu öllu til heilla.Lítil saga af persónukjöri
Á Borgarfirði eystri hefur verið við lýði persónukjör. Í síðustu kosningum völdust þar fimm menn en þrír þeirra eru nú í framboði fyrir þrjá mismunandi flokka. Ekki tíðkast að myndaður sé meirihluti. Hver er niðurstaðan? Síðan ég byrjaði í sveitarstjórn hefur ekki eitt mál verið afgreitt í ósátt. Þar er ekki um að kenna átakafælni heldur ræða menn saman og finna afgreiðslu sem allir geta unað við enda allir í sama liði. Enginn spyr sig hvað sé best fyrir flokkinn sinn. Að vera laus við slíka einstaklinga verður til þess að mál þokast hraðar í rétta átt og auðveldara verður að ná árangri sem allir geta verið stoltir af. Ef þið trúið mér ekki skora ég á ykkur að bera saman lengd fundargerða sveitarstjórna Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar.
Að vera eða ekki vera (í flokknum)?
Það er mér mikið hjartans mál að til áhrifa í sveitarstjórnum veljist fólk sem er óháð stjórnmálaflokkum. Ég treysti því frekar til þess að taka ákvarðanir út frá bestu mögulegu upplýsingum hverju sinni en ekki út frá hagsmunum stjórnmálaflokks. Sumir telja að framboð sem ekki hafi ítök á Alþingi komi engum málum áfram. Fólk þurfi að tilheyra klíkunni. Reyndar finnst mér slíkar vangaveltur opinbera galla flokkakerfisins frekar en að réttlæta það og sums staðar myndi slíkt jafnvel kallast spilling. Ég tel mig hafa náð árangri í að koma mínum hugðarefnum áfram þótt ég sé aðeins persónukjörinn hreppsnefndarmaður í litlu sveitarfélagi. Á Seyðisfirði óttuðust flokkspólitíkusarnir dauðadóm Fjarðarheiðarganga vegna stjórnarskipta þar í bæ. Lexían er kannski sú að óháð sveitarstjórnarfólk á auðveldara með að ná árangri burtséð frá því hvaða flokkar eru við völd á Alþingi hverju sinni. Enda eiga góð mál að ná framgangi sama hvaðan þau koma. Af hverju á harðlínuflokksfólk frekar heima í sveitarstjórn? Hvað ef flokkurinn þeirra er í stjórnarandstöðu á Alþingi?
Austurlistinn er engum háður. Eina ástæða þess að viðrinið ég get boðið fram krafta mína þessar kosningar er tilvist slíks afls. Ég verð var við að flokksbundið fólk spyrði okkur gjarnan saman við landsflokka enda þekkir það ekki annað en að vera partur af slíkri hjörð. En það er sannarlega ekki tilfellið þó svo það hefði komið sér vel að hafa aðgengi að sambærilegu fjármagni og flokksbundnu framboðin. Austurlistinn er rammpólitískur en ekki flokkspólitískur.
Ég ætla biðja ykkur um að mæta á kjörstað og kjósa svo vilji íbúa komi fram. Hvort sem þið ætlið að kjósa okkur eða aðra mætið á kjörstað, ég hef engan áhuga á að plata fólk til að kjósa gegn sinni sannfæringu enda eiga niðurstöður kosninga að endurspegla skoðanir íbúanna en ekki hver nær að plata til sín flest atkvæði.
P.S. í öllum flokkum má finna frábært fólk.
Höfundur skipar 3. sæti hjá Austurlistanum X-L