Þegar stjórnmálamennirnir stálu íbúafundinum

gunnarg_web.jpgÞað var rétt þegar maðurinn líkti stjórnmálamönnum við beljurnar – þegar ein þeirra pissar er annari mál. „Þegar einn stjórnmálamaður hefur tekið til máls þurfa þeir allir að tala.“

 

Ég hef áður gagnrýnt fundi sem boðað er til undir þeirri yfirskrift að grasrótin eigi að tala en stjórnmálamennirnir „stela“ fundunum. Og stjórnmálamennirnir tala svo mikið að þegar þeir hafa lokið sér af hafa þeir svæft áhuga fundargesta og tíminn er á þrotum.

Sem er nákvæmlega upplifun mín af íbúafundinum á Stöðvarfirði um daginn. Fundinum þar sem ræða átti lokanir bankans og pósthússins – og framtíð í atvinnumálum staðarins.

En um leið og orðið var gefið laust stökk fyrsti bæjarfulltrúinn á það. Síðan kom næsti oddviti, annar maður á lista, þriðji maður á lista, fyrsti þingmaður, annar þingmaður, þriðji þingmaður! Allir kröfðu hvern annan um svar áður en þeir luku máli sínu á orðunum „en ég kom nú fyrst og fremst hingað til að hlusta.“

Á hvað? Á svarið sem þú vilt heyra frá þingmanninum (sem þú veist að hann er ekkert að fara að svara þér) eða félaga þinn úr bæjarráðinu?

Eða Stöðfirðinga?

Í þeim heyrðist vart múkk. Nokkrir risu úr sætum sínum og skutu á starfsmann Póstsins, sem ólíkt kollegum sínum hjá Landsbankanum, þorði að mæta austur í ljónagryfjuna. Slík var tryggðin við viðskiptavini til margra ára.

Þótt hinir póltísku fulltrúar væru sennilega aðeins um 10% fundarmanna má ætla að þeir hafi verið með um 90% ræðutímans.

Lega Hringvegarins var þessum stjórnmálamönnum sérlega hugleikin, framtíðarlyftistöng Stöðvarfjarðar, útvarðarins í suðri.

Samkvæmt minnispunktum mínum tóku tveir heimamenn þátt í þeirri umræðu. Annar sagðist hafa löngum stutt færsluna af öryggissjónarmiðum. Hinn spurði um atvinnusköpun á Stöðvarfirði, færslu opinberra starfa þangað og bætti við „þjóðvegurinn skapar ekki störf.“

Því miður kom fyrirspurnin, sú besta á fundinum, heldur seint fram til að hún væri rædd af viti.

En nægur var tíminn fyrir oddvita meirihlutaflokkanna til að semja og fá samþykkta álytun um færslu Hringvegarins.

Nú ætla ég Stöðfirðingum ekki að vera ósammála ályktuninni eða efni hennar. Ég ætla heldur ekki að taka afstöðu til málstaðarins. Þeir verða samt að taka málin í eigin hendur, álykta sjálfir, tala sjálfir í stað þess að láta tvo bílfarma af nyrðri fjörðunum og einn af flugvellinum á Egilsstöðum yfirgnæfa sig.

Og stjórnmálamönnunum vil ég benda á það sem einhvern tíman var reynt að kenna mér: Það er ástæða fyrir að við höfum einn munn en tvö eyru.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar