Eggjað til ofbeldis?

Ég heyri á vinum mínum syðra að skiptar skoðanir eru á því hvort grýta megi eggjum og skyri í Alþingishúsið eður ei. Sjálfri finnst mér það ekki skipta sköpum. Tvennt er í mínum huga kýrskýrt. Nú á alþýða manna að láta heyra í sér svo undir tekur í fjöllunum og gera stjórnvöldum ljóst að við erum ekki reiðubúin til að láta skítadreif fjárglæfrafólks yfir okkur ganga. Hitt er að ofbeldi á aldrei rétt á sér og við verðum að gæta þess að missa okkur ekki í slíkt, þrátt fyrir kraumandi reiði og kröfu um að ábyrgir axli afleiðingar.Ég velti fyrir mér hversu íslenskur almenningur er reiðubúinn að ganga langt til að sú krafa nái fram að ganga, þegar ekki er nein hefð fyrir því um líku innan íslenska kerfisins. Einnig er umhugsunarefni hvað kæmi þá í staðinn.Hvað sem því líður þyrstir íslenska þjóð á fjármálalegri vonarvöl í réttlæti. Hana hungrar eftir skilmerkilegri útleggingu á því hvernig nokkrir ráðandi einstaklingar gátu glutrað niður því sem gengnar kynslóðir og roskið fólk þessa lands vann þjóð sinni hörðum höndum. Hvernig á því má standa að næstu kynslóðir Íslendinga eru hnepptar í skuldafjötra vegna áhættufíknar fárra manna. Víðtæk samstaða fólksins í landinu skiptir nú sköpum og er okkar ódeigasta vopn; samstaða sem byggir á heilbrigðum kröfum og raunhæfum væntingum.                                                                        Steinunn Ásmundsdóttir (Leiðari Austurgluggans 20. nóvember sl.)  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar