Ein þjóð í einu landi

huld_adalbjarnardottir_nov12_web.jpg
Á Íslandi býr ein þjóð í einu landi, þjóð sem hefur sameiginlega hagsmuni. Mestu máli skiptir að fólkið í landinu geti lifað sómasamlegu lífi og njóti tækifæra til góðrar heilsu, öryggis, náms og atvinnu í sátt við umhverfið. 

Oft gerir tortryggni milli höfuðborgar og landsbyggðar vart við sig, svo og milli byggðarlaga innan sömu landsbyggðakjördæma. Nærhagsmunir og ótti gagnvart hugsanlegri ógn utanfrá stýrir þá gjarnan umræðunni. Gott er að hafa í huga að byggðarlögin eru mikilvæg hvert öðru, þau hafa hins vegar mismundandi hlutverk í keðju hagkerfis, velferðar og menningar á Íslandi. 

Þegar litið er til heilbrigðisþjónustu, menntunar og löggæslu auk annarar opinberrar þjónustu þarf að huga vel að aðgengi þjónustuþeganna svo og að starfsemin nái að þroskast og dafna með breyttum tímum og áherslum. Fjölbreytni í atvinnulífi er grundvöllur að samkeppnishæfni byggðarlaganna auk þeirrar þjónustu sem þar er völ á.

Hvaða þjónusta er grunnþjónusta?

Þar sem landið er dreifbýlt og oft á tíðum erfitt yfirferðar þarf að veita velferðarþjónustu sem víðast en eftir sem þjónustan verður sértækari er eðlilegt að hún sé staðsett á færri og stærri stöðum. Hins vegar er óráðlegt að skipulag heilbrigðisþjónustunnar þróist án stefnumörkunar og almennrar umræðu um hvernig heppilegast sé að hafa heilbrigðiskerfið á hverjum tíma. 

Hvaða þjónustu við skilgreinum sem grunnþjónustu og hvenær hún verður það sértæk að  hún verði aðeins í höndum stærstu sjúkrastofnanna og hvernig við hyggjumst koma til móts við þá sem lengra eiga að sækja þjónustuna. Undanfarin ár hefur nokkuð verið um að breyta eigi heilbrigðisþjónustunni með því að færa meiri hluta hennar á stærstu stofnanirnar án þess að hafa vissu fyrir því að þær hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna verkefninu. 

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veitir mikilvæga þjónustu í kjördæminu sem verður að efla og styrkja en jafnframt sinna minni heilbrigðisstofnanirnar mikilvægu hlutverki, hlutverki sem þeim hefur verið gert erfitt fyrir að sinna vegna hagræðingarkrafna en sem nærsamfélagið þarfnast og á kröfu til.

Öryggi borgaranna er ein af forsendum velferðar þeirra og hefur löggæslan þar mörg og fjölbreytt verkefni. Sífellt verða verkefnin yfirgripsmeiri og svæði lögregluumdæmanna jafnvel stækka á meðan mannaflinn minnkar. Komið hefur enn gleggra í ljós mikilvægi björgunarsveitanna síðastliðin ár vegna náttúrufarslegra ógnanna og er vert að huga vel að hlutverki þeirra í þjóðfélaginu.

Varhugaverð samkeppnisstaða framhaldsskóla

Menntun er máttur og í örri þróun samfélagsins þarf skólakerfið sífellt að bregðast við nýjum áherslum og þörfum. Mikilvægt er að skólarnir séu í góðum tengslum og samstarfi við samfélagið og atvinnulífið því öll berum við jú ábyrgð á að undirbúa unga fólkið okkar til starfa á komandi árum og áratugum. 

Háskólinn á Akureyri hefur haft jákvæð áhrif á menntunarstigið í kjördæminu auk rannsókna og áhuga á fjölbreyttri starfsemi og stöðu landsbyggðarinnar. Samkeppnisstaða framhaldsskólanna er varhugaverð, að þurfa að keppa um fjármagn í gegnum fjölda nemenda setur þá strax í misgóða stöðu varðandi landfræðilega staðsetningu. Þá verður einnig að standa vörð um og huga betur að iðn- og verknámi.

Arðsöm atvinnustarfsemi leiðin til að efla og verja velferðarkerfið

Ég hef þá trú að stækkun hagkerfisins með eflingu arðsamrar atvinnustarfsemi sé leiðin til að standa vörð um og efla velferðarkerfið. Skynsamleg nýting á endurnýjanlegum auðlindum okkar gefur möguleika til fjölbreyttari atvinnustarfsemi víðar um land. 

Mikilvægt er að nýta ólík sjónarmið sem birtast í þjóðfélaginu sem úrræði til betri lausna en ekki sem ógnun við sitjandi ríkisvald. Grundvallaratriði er að byggja upp traust og trúverðugleika milli landsmanna og kjörinna fulltrúa þeirra á Alþingi. 

Leggja verður áherslu á gegnsæ vinnubrögð, heiðarleika, vinnusemi og upplýsta ákvörðunartöku undir merkjum samvinnu og jafnræðis þar sem málefnin eru í öndvegi, landi og þjóð til heilla.

Greindarhöfundur býður sig fram í 2.-3. sæti á lista framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingsikosningar 2013.
Millifyrirsagnir eru Austurfréttar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.