Einar Már sækist eftir 2. sæti hjá Samfylkingu í NA-kjördæmi

Einar Már Sigurðarson alþingismaður gefur kost á sér í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í prófkjöri flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Einar Már skipaði 2. sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu í alþingiskosningunum árin 2003 og 2007. Hann var í 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Austurlandskjördæmi árið 1999 og hefur setið á Alþingi síðan.

134-220.jpg

Einar Már hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa m.a. verið bæjarfulltrúi í Neskaupstað, formaður bæjarráðs Neskaupstaðar,  Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, Kennarasambands Austurlands, Skáksambands Austurlands og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Á Alþingi hefur hann setið í fjárlaga-, landbúnaðar- og samgöngunefnd. Er formaður menntamálanefndar, formaður Íslandsdeildar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, einn af varaforsetum Alþingis og situr í iðnaðarnefnd. Þá hefur hann starfað í ýmsum ráðum, starfshópum og nefndum á vegum stjórnvalda t.d. um sameiningu sveitarfélaga, um endurskoðun starfsnáms, um endurskoðun vegalaga, um framhaldsfræðslu og er formaður landflutningsráðs samgönguráðuneytisins.


Einar Már er kvæntur Helgu Magneu Steinsson og eiga þau fimm uppkomin börn. Heimili þeirra er í Neskaupstað og hefur flutningur fjölskyldunnar til höfuðborgarinnar aldrei verið á dagskrá enda hefur búsetan eystra tryggt nauðsynleg tengsl við mannlífið í kjördæminu. Framundan eru uppbyggingartímar, í þeirri uppbyggingu skiptir máli að hefðbundinn jafnaðarmaður með reynslu og þekkingu verði þátttakandi í mótun samfélags framtíðarinnar þar sem jöfn tækifæri allra verði höfð að leiðarljósi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar