Ekkert rúm fyrir lúxusfjárfestingar að sinni

Ársreikningur Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2015 hefur verið lagður fram og endurskoðaður. Niðurstaðan er vel viðunandi að flestu leyti, þrátt fyrir að ýmsir útgjaldaliðir hafi hækkað á árinu.


Tekjur A og B hluta ársreiknings jukust um ca 700 milljónir frá árinu 2014, þar af tekjur A hlutans um ca. 300 milljónir. Hinsvegar jukust útgjöld einnig, eða einnig um 300 milljónir, þó hlutfallslega heldur hærra en tekjurnar.

Rekstrarniðurstaðan þ.e. tekjur að frádregnum gjöldum, var jákvæð um 755 milljónir miðað við 514 milljónir árið 2014. Rekstrarniðurstaða eftir fjármagnsliði og afskriftir var 46 milljónir í A og B hluta á móti 128 milljónum árið 2014.

Hækkanir á útgjöldum, einkum launahækkanir hafa vissulega komið niður á framlegð sveitarfélagsins. Framlegðarprósentan lækkaði nokkuð á milli ára og var lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þegar skuldir eru háar, svo sem raunin vissulega er hjá Fljótsdalshéraði, þá þarf framlegð að vera nokkuð há til að standa undir afborgunum lána.

Við höfum þó haldið sjó í þessum efnum, enda tel ég að starfsmenn sveitarfélagsins og bæjarstjórn og hafi sýnt ráðdeild í fjármálum og farið skynsamlega með fjármuni þess. Það er ágætis jafnvægi í rekstrinum, þrátt fyrir fyrrgreindar hækkanir, og sveitarfélagið stefnir áfram að því að halda sig við áætlun um að skuldaviðmið verði komið niður í 150% árið 2019.

Það er hinsvegar ljóst að rými sem við höfum til fjárfestinga á næstu árum er ekki mikið. Að mati þess sem hér stendur er þar ekkert rúm fyrir lúxusfjárfestingar. Við sem stöndum í forsvari fyrir sveitarfélagið, verðum að forgangsraða fjármunum.

Þeim sem þetta skrifar, hefur stundum þótt Íslendingar heldur slakir í þeirri íþrótt. Það er einnig skoðun greinarhöfundar, að ekki sé rúm á næstu 2-3 árum, fyrir fjárfestingar í öðru en því sem má telja lögboðin, eða a.m.k. nauðsynleg verkefni á vegum sveitarfélagsins. Undir þetta falla lögboðin verkefni s.s. félagsþjónusta, fræðslumál, skipulagsmál, og fleiri verkefni s.s. rekstur leikskóla, tónlistarskóla, menningarmál o.fl.

Rými fyrir lúxusfjárfestingar er hinsvegar, að mati þess sem hér ritar, ekkert, fyrr en frekar greiðist úr fjármálum sveitarfélagsins. Fleiri verkefni þurfa að vera í forgangi að sinni, s.s. viðhald gatna og gangstétta, viðhald mannvirkja, lagnakerfis og fleira slíkt. Þar er talsverð uppsöfuð viðhaldsþörf sem verður að vera í forgangi þegar fjármál næstu ára eru skipulögð. Það er ekkert rúm fyrir lúxusfjárfestingar að sinni.

Höfundur er bæjarfulltrúi Á-lista á Fljótsdalshéraði

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.