Ekki sama VA og séra MR?

Síðastliðið föstudagskvöld kom upp atvik í Gettu-betur spurningakeppni framhaldsskólanna á RÚV þar sem MR og Kvennaskólinn kepptu í 8-liða úrslitum. Eftir að keppni lauk komu upp ásakanir um að liðsmönnum MR hefði verið leiðbeint úr salnum af þjálfara sínum þannig að þeir breyttu svari sínu úr röngu í rétt og stigið sem tryggði þeim 25-24 sigur.

Daginn eftir komu viðbrögð frá stýrihóp keppninnar þar sem fram kemur það sjónarmið að reglur keppninnar séu skýrar og svindl sé ekki liðið. Dómarar, stjórnendur og starfsfólk útsendingarinnar fylgist náið með áhorfendum í sal og ef eitthvað óeðlilegt komi upp meðan á keppni stendur sé spurning gerð ógild og ný spurning borin upp. Meðan á þessari keppni stóð hafi enginn orðið var við neitt slíkt og því standi úrslitin eins og reglur kveði á um.

Niðurstaða stýrihópsins er því sú að ef ekki er hægt að koma auga á mistökin meðan á keppni stendur skuli úrslit standa. Skiptir þá engu að þegar horft er á keppnina í endursýningu má sjá nokkuð glögglega að vísbending berst úr salnum og liðsmenn breyta úr röngu svari í rétt sem hefur úrslitaáhrif í keppnina þar sem hún vannst á einu stigi.

Mistök dómara eru endanleg

Í samkomulagi um keppnina, sem allir þátttökuskólar gangast undir, er að finna reglur hennar. Í 11. grein segir: „Vakin er athygli á því að berist svar frá öðrum utanaðkomandi til keppenda eða hafi spyrjandi eða dómari ástæðu til að ætla að svo hafi verið skal umsvifalaust ógilda spurninguna og bera aðra nýja upp“. Í þessari grein er því ekkert að finna um að úrslitin skuli standa. Eina grein samkomulagsins sem fjallar um eitthvað í þá veru er 17. grein sem tekur á úrskurðarvaldi dómara. Þar segir: „Úrskurðarvald dómara er endanlegt að því er varðar spurningaefnið. Úrslitum verður því ekki breytt eftir á.“

Þegar kemur að þessari grein eru fordæmi úr sögunni fyrir því að svör dómara við spurningum hafi verið röng. Komu svoleiðis dæmi upp m.a. 1998, 2004 og 2008. Árið 2008 bar Menntaskólinn við Hamrahlíð sigur úr býtum með einu stigi gegn Kvennaskólanum sem kærði úrslitin sökum þess að þeir fengu rangt fyrir rétt svar. Mistökin voru dómara. Í umfjöllun DV kemur fram að úrslitin standi þrátt fyrir allt þar sem engin fordæmi eru fyrir öðru.

Þegar litið er yfir söguna er því hægt að segja að ákvörðunin sé réttmæt eða hvað?

Ekki annað hægt en ógilda úrslitin

Fyrir rúmum mánuði sigraði lið Verkmenntaskóla Austurlands lið Menntaskólans á Ísafirði með tveggja stiga mun í seinni umferð í útvarpi og komst þar með í sjónvarpið í fyrsta sinn frá árinu 2002. Daginn eftir keppnina kom í ljós að lið VA hafði fengið lengri tíma í hraðaspurningum og náð þar þremur stigum aukalega. Í kjölfarið tóku forsvarsmenn keppninnar þá ákvörðun að keppnin skyldi vera endurtekin.

Engin fordæmi voru fyrir slíku og ekkert um þetta að finna í samkomulagi keppninnar. Illa gekk að fá rök fyrir ákvörðuninni en loks náðist í dagskrárstjóra sem svaraði: „Rökin sem búa þar að baki og túlkun okkar á reglum er sú að hér var ekki um mistök í dómgæslu að ræða, hvorki spurninga né svör röng eða stig mistalin. Við vitum að slík tilvik hafa komið upp áður og ekki talist hingað til gefa nægt tilefni með tilliti til reglna til að breyta úrslitum eftirá. En þar sem um tæknileg mistök var að ræða þar sem annað liðið fékk greinilegt og óumdeilt forskot með því gefast ranglega tækifæri til að svara fleiri spurningum en hitt - og það sjö spurningum sem á endanum skilaði þeim sigri - þá mátum við sem svo að þar hallaði svo rækilega á hitt liðið að ekki væri hægt annað en að ógilda úrslit og endurtaka leikinn.“

Engin gögn

Við, sem sinntum utanumhaldi og forsvari liðs VA, fórum fram á upplýsingar um hvernig ákvörðunin hefði verið tekin. Í fyrsta lagi fórum við fram á upplýsingar um hvort stýrihópurinn, þar með talið fulltrúar þátttökuskólanna, hefði fundað um málið. Eftir meira en sólarhrings þref um málið kom á daginn að svo hafði ekki verið. Hópurinn var þá kallaður saman og staðfesti fyrri niðurstöðu einróma, að því er okkur er tjáð af starfsmönnum RÚV.

Í kjölfarið óskuðum við eftir gögnum um ákvarðanatökuna á grundvelli upplýsingalaga, meðal annars fundargerð stýrihópsins. Fyrstu svörin frá RÚV voru á þá leið að tölvupóstar eða önnur gögn um málið yrðu ekki afhent. Með það leituðum aðstoðar ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, sem starfar innan forsætisráðuneytisins.

Sá sendi RÚV áminningu um að skylt væri að láta gögnin af hendi samkvæmt lögum. Kom þá í ljós möguleg aðalástæða fyrir að við fengum engin gögn. Þau voru ekki til! Hins vegar fengum við ítrekaðar og endurteknar afsökunarbeiðnir um hve leitt og erfitt málið væri fyrir alla og að stýrihópurinn hefði verið einhuga um niðurstöðuna. Í kjölfarið áminnti ráðgjafinn starfsmenn RÚV um að skyldu þeirra um að halda til haga „mikilvægum upplýsingum, meðal annars um samskipti við almenning, sem sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða.“

Þá voru tvær vikur liðnar frá upphaflegu keppninni og hún þegar verið endurtekin. Þar báru Ísfirðingar sigur úr býtum og mæta til leiks í sjónvarpskeppni í kvöld gegn Verzlunarskólanum. Ég óska þeim alls hins besta í kvöld.

Ljóst er þó að sú ákvörðun sem tekin var af starfsmönnum RÚV kom aðeins niður á öðru liðinu. Þegar rök dagskrárstjóra eru skoðuð má auðveldleg heimfæra þau á keppni föstudagsins. Nema það er einn grundvallarmunur. Engar reglur voru til um viðbrögð við því þegar farið er fram yfir í tíma en aðstoð úr sal er með öllu bönnuð. Því er óskiljanlegt að RÚV og stýrihópurinn hafi tekið þá ákvörðun sem tekin var með aðeins mánaðargamalt fordæmi um endurtekna keppni.

Höfundur er kennari við Verkmenntaskóla Austurlands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.