Elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig

Á laugardaginn er aðalfundur félagsins Hinsegin Austurlands, félags sem var stofnað í desember 2019 til að efla umræðu, skapa vettvang og veita hinsegin fólki á Austurlandi, aðstandendum þeirra og velunnurum rödd og skjól í okkar góða austfirskra samfélagi.

Á undanförum misserum hefur orðið mikið bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks, bæði erlendis sem og hér innanlands. Þetta hefur bitnað hvað mest á hinsegin ungmennum og transfólki og kostað bæði börn og fullorðna lífið. Helsta vopnið gegn hatursorðræðu, ofbeldi og mismunun minnihlutahópa er fræðsla. Endalaus, uppbyggileg fræðsla byggð á þekkingu og reynslu.

Múlaþing skrifaði á dögunum undir samning við Samtökin ´78 um hinsegin fræðslu líkt og 11 önnur sveitarfélög hafa nú gert og Akureyrarbær bætist í hópinn á föstudaginn.

Í hinsegin fræðslu er markmiðið að fræða börn og fullorðna um hvað það þýðir að vera hinsegin og hvert er hægt að leita eftir aðstoð og stuðningi. Markmið fræðslu í þessum málaflokki er ekkert öðruvísi en önnur fræðsla sem veitt er og lýtur að mannréttindum fólks. Ísland er framarlega í hópi landa þar sem sjálfsögð mannréttindi hinsegin fólks eru virt. Á Íslandi hefur náðst árangur í að bæta réttindi hinsegin fólks á undanförnum árum undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Við höfum blessunarlega, sem samfélag, gert með okkur sáttmála um að virða líf og réttindi hinsegin fólks, með t.d. löggjöf um kynrænt sjálfræði sem eykur sérstaklega réttindi trans fólks og intersex fólks, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Síðastliðið vor samþykkti síðan Alþingi fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í málefnum hinsegin fólks.

Í íslensku samfélagi er ólöglegt að mismuna fólki út frá kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu, hvort heldur er í lífi, leik eða starfi.

Það hefur verið mér sérstaklega sársaukafullt að fylgjast með umræðum á samfélagsmiðlum um málefni hinsegin fólks og hinsegin fræðslu. Þar fer mikinn í umræðunni, í bland við guðsorð og fyrirslátt um verndun barna, kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Múlaþings, Þröstur Jónsson.

Nú þekki ég fyrrum samstarfsmann minn úr sveitastjórn af góðu einu og þó að við séum í grunninn ósammála í okkar pólitísku skoðunum þá höfum við borðið virðingu fyrir skoðunum hvors annars og unnum vel saman.

Nú er hins vegar svo komið að ég get ekki orða bundist. Vikum saman hefur lítið komið frá hinum kjörna fulltrúa annað en andúð gegn hinsegin fólki og hinsegin fræðslu. Manni sem eftir minni bestu vitneskju er ekki bara í forréttindastöðu hvað varðar kyn, kynhneigð, uppruna, húðlit, fötlun og svo margt, margt fleira, heldur er einnig í ábyrgðarstöðu eins stærsta sveitarfélags landsins. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa almennings að við sem störfum í stjórnmálum sýnum öllum manneskjum þá virðingu að tala ekki niður ákveðna hópa fólks, hvort sem það er hinsegin fólk, aldraðir, fatlaðir eða aðrir.

Kæri Þröstur, nú er mál að linni. Mikið hefur verið vísað í ritninguna í þinni orðræðu og það truflar mig ekki. En við getum þá ekki valið bara brot af því besta sem hentar okkar málflutningi hverju sinni. Þannig skákar hið æðsta boðorð öllu öðru sem hægt er að rangtúlka úr hinni helgu bók til að réttlæta mannfyrirlitningu.

Jesús sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt. 22:37-39)

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á aðalfundi Hinsegin Austurlands á Teams næstkomandi laugardag kl 14. Komið, takið þátt og stöndum vörð um allt okkar hinsegin fólk, börn sem fullorðna.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi

regnbogahatid hinsegin aland juli22 0016 web2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar