Elsti jólasveinninn í Bjólfinum útbrunninn og lagður inn á dvalarheimili

Nú þegar jólasveinarnir eru farnir til sinna heimkynna eftir að hafa glatt börn og fjölskyldur um jólin berast fréttir um að einn elsti Jólasveinninn í Bjólfinum á Seyðisfirði verði lagður inn á dvalarheimili í Jólasveinalandi. Hann mun því ekki sjást oftar á Seyðisfirði eða í nærliggjandi byggðarlögum.

Þessi aldraði jólasveinn hefur verið á ferðinni flest jól í kaupstaðnum frá því laust eftir miðja síðustu öld og glatt blessuð börnin þar með því að setja í skóinn þeirra skemmta sér og syngja með þeim og ólátast á jólatréskemmtunum í kaupstaðnum. Hann hefur oftast verið nefndur Kertasníkir/Hurðaskellir/Gluggagægir (Jóhannsson/Leppalúðason).

Hann hefur þótt fyrirferðamikill frekur og hávaðasamur og oft mikill ólátabelgur, stjórnað öðrum jólasveinum með harðri hendi og verið óhlýðinn við Grýlu mömmu og pabba Leppalúða. Þrátt fyrir þessi augljósu einkenni er hann ljúfur sem lamb inn við beinið má ekkert aumt sjá er barngóður og elskar að syngja. Hann er gleyminn og man stundum ekki hvað hann, eða bræðurnir, heita og ruglar oft saman jólalagatextunum. Stafurinn hans, þessi með bjöllunni og drykkjarflöskunni hefur fylgt honum síðustu áratugina.

Fréttin segir að nú um síðustu jól á Jólatrésskemmtun í Herðubreið, þar sem hann birtist að venju ásamt fleiri jólasveinum, hafi viljinn og getan til að gleðja börnin og foreldrana klárlega verið á sínum stað Hann skemmti sér vel og virtist vera í góðu stuði. En það var eins og sá sem var inni í honum væri orðinn saddur. Neistinn virtist ekki vera sá sami og áður. Börnin virtust ekki taka eftir neinu Eins og alltaf áður tóku þau vel á móti sínum vini og sungu hástöfum og dönsuðu með honum kring um jóatréð.

Afdrifarík tilskipun Margrétar Þórhildar og sigurinn á Dönum

Það fer ekki hátt hér í mannheimum en nú hefur borist tilskipun í Jólasveinaland frá Margréti Þórhildi Danadrottningu. Jólasveinar Seyðisfjarðarkaupstaðar í Bjólfinum verða allir sviptir sínum konunglegu kaupstaðatitlum. Eftirleiðis verða þeir bara venjulegir jólasveinar eins og allir hinir. Seyðfirðingar hafa glatað trausti drottningar með því að samþykkja sameiningu við þrjú önnur óskyld sveitarfélög á Austurlandi.

Með þeim gjörningi fallast þeir á að leggja kaupstaðanafnið niður sem langlangafi hennar Kristján IX gaf Seyðfirðingum með konunglegri tilskipun 1. janúar 1895. Það er talin móðgun mikil við danska heimsveldið og Margréti Þórhildi og ekki lagaði sigur Íslands á Dönum í handbolta 31-30 nýverið. Heyrst hefur að ef Seyðfirðingar hefðu haft minnsta grun um þessa afdrifaríku tilskipun Margrétar Þórhildar og sigurinn hefðu þeir ekki samþykkt sameininguna.

Sá gamli fúll á móti í svítu nr. 125 á áttundu hæð í bæjarfjallinu Bjólfi

Grýlu mömmu finnst því réttur tími nú að láta þann gamla hætta á þessum dramatísku tímamótum jólasveinanna í Bjólfinum. Leppalúði pabbi segir að það eigi hann erfitt með að sætta sig við blessaður. Hann sé því mikið fúll á móti þessa dagana enda nú orðinn venjulegur gamall jólasveinn. En allt hefur sinn endi eins og upphaf. Jólasveinar koma og fara. Þegar honum var tilkynnt að hans tími væri kominn og nú ætti hann að fara á dvalarheimilið ætlaði hann jú fyrst að mótmæla kröftuglega. Reif kjaft smá stund við Grýlu mömmu en sagði svo ljúfur: „Nú jæja - er þá komið að því? Já - en mkið andsk.... var þetta nú alltaf gaman. Takk fyrir mig og kveðja til allra barnanna og foreldranna á Seyðisfirði. Kram og knús elskurnar mínar.Þíð eru bestust. Já lang- lang bestust. Ég elska ykkur öll og mun sakna ykkar mjög mikið“.

p.s. Ef þið hafið áhuga á að heimsækja hann á dvalarheimilið í Bjólfinum þá bankið þið bara upp á. Hann er í svítu nr.125 á áttundu hæð. Þaðan er flott útsýni yfir bæinn og ykkur sem þar búið.

Hó –Hó - Fréttir úr Jólasveinalandi í Bjólfinum Seyðisfirði á nýbyrjuðu ári 2020

Frá jólaballi í Herðubreið 2017 þar sem jólasveinarnir færðu börnunum Huginshúfur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar