Endurbætur á Norðfjarðarflugvelli - framlag til eflingar heilbrigðisþjónustu á Austurlandi

Á morgun, sunnudaginn 20.ágúst, verður Norðfjarðarflugvöllur tekin formlega í notkun eftir gagngerar endurbætur. Um er að ræða nokkuð óvenjulega framkvæmd á samgöngumannvirki, þar sem sveitarfélagið Fjarðabyggð, Samvinnufélag Útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hf. fjármögnuðu helminginn af kostnaði við framkvæmdarinnar á móti ríkinu.

Flugvallaframkvæmdir sem þessar eru engu að síður, alfarið á ábyrgð ríkisins og ekki er hægt að mæla með beinni þátttöku sveitarfélaga í þeim verkefnum sem eru á ábyrgð ríkisins, eðli málsins samkvæmt. Aðdragandi þessa verkefnis skapar þó ákveðna sérstöðu og er án fordæma. Í því ljósi er rétt að skoða forsögu málsins.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur árum saman barist fyrir bættri stöðu Norðfjarðarflugvallar enda ástand vallarins, sér í lagi á árunum 2014 og 2015, algjörlega óviðunandi. Flugvöllurinn var nánast ófær stærstan hluta ársins og ógnaði sú staða öryggi fólks um að sækja sérhæfðar lækningar á önnur sjúkrahús á sem stystum tíma og með sem minnstum óþægindum.

Á meðan þessu ástandi stóð, fóru forsvarsmenn sveitarfélagsins ófáar ferðir til ráðuneytis og fjárlaganefndar Alþingis til að freista þess að ná eyrum ráðamanna um veitingu fjármagns til viðgerða og viðhalds á flugvellinum. Þær ferðir báru því miður engan árangur á þessum tíma og ástand flugvallarins á sama tíma algjörlega óviðunandi.

Leita varð því óhefðbundinna leiða og í upphafi sumars árið 2015 var unnið með þá hugmynd að leita eftir fjármagni hjá heimamönnum til að standa straum á endurbótum flugvallarins á móti ríkinu. Til að gera langa sögu stutta varð úr að fyrrgreindir aðilar greiddu um helming endurbótanna með sveitarfélaginu og framlag ríkisins varð að veruleika í fjárlögum ársins 2016.

Skrifað var undir samstarfssamninga um framkvæmdina við Innanríkisráðuneytið og heimamenn með viðhöfn í flugstöð Norðfjarðarflugvallar fyrir rétt um einu ári síðan, eða þann 22.ágúst 2016. Verkið hófst þá þegar og hefur gengið vonum framar og er nú formlega lokið með góðum árangri.

Fjarðabyggð hefur ætíð litið á framlag sitt og annarra heimamanna í þessu verkefni sem framlag til heilbrigðisþjónustu fjórðungsins, frekar en sem aðkomu að samgöngumálum. Góður sjúkraflugvöllur í Norðfirði er órjúfanlegur þáttur við þjónustu Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað og eykur þannig öryggi og þægindi íbúa í Fjarðabyggð og Austurlandi öllu til muna.

Einnig má minna á, að ein forsenda þess að hér hefur orðið til vel heppnuð atvinnustarfsemi, sem skapað hefur fleiri hundruð störf í sjávarútvegi, iðnaði og þjónustu, er m.a. vegna tilvist Umdæmissjúkrahússins. Krefjandi verkefni og vinna til sjós og lands á jafn stóru atvinnusvæði, kalla á að heilbrigðis- og bráðaþjónusta sé til fyrirmyndar. Þá mun, með opnun Norðfjarðargangna, aðgengi verða betra að þjónustu Umdæmissjúkrahússins, og styður öflugur sjúkraflugvöllur við þá þjónustu sem þar er veitt.

Þó að nýr flugvöllur sé fyrst og fremst ætlaður til sjúkraflutninga mun völlurinn nýtast til notkunar á öðrum sviðum s.s. fyrir flugáhugamenn á einkaflugvélum. Þá hefur verið stofnað flugfélag, Flugfélag Austurlands, sem mun nýta sér flugvöllinn m.a. til þess að bjóða uppá flugferðir til útsýnisflugs fyrir ferðamenn o.fl.

Ég vil fyrir hönd sveitarfélagsins, þakka Samvinnufélagi Útgerðarmanna í Neskaupstað, Síldarvinnslunni hf., Innanríkisráðuneytinu og Alþingi fyrir að koma þessu verkefni í höfn. Þá vil ég einnig þakka verktaka verksins, Héraðsverki ehf., fyrir vel heppnaða framkvæmd sem og beint framlag þeirra til að gera flughlaðið við flugstöðina að veruleika. Þá er Isavia þakkað fyrir góða samvinnu við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Að lokum vil ég segja að við getum öll verið afar stolt af því mikla framfaraskrefi sem þetta verkefni hefur í för með sér, heilbrigðisþjónustu á Austurlandi öllu til heilla.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.