Enn um áhættumat

Þær áætlanir um laxeldi sem nú eru uppi eru tvímælalaust eitt stærsta byggðamál sem fram hefur komið síðustu áratugi og ef þessi uppbygging gengur eftir geta byggðarlög sem hafa átt í vök að verjast svo sannarlega horft fram á bjartari tíma. Um er að ræða þekkingariðnað sem leiðir af sér hundruð fjölbreyttra starfa og í stað þess að tala um atgervisflótta er hægt að fara að tala um atgervissókn.

Sem dæmi má nefna að hjá frændum okkar Færeyingum eru framleidd um 80.000 tonn af laxi. Þar búa um 50.000 manns og 3.000 vinna við fiskeldi, sem er stórt hlutfall, enda fiskeldi orðið ein mikilvægasta atvinnugrein þeirra. Einnig má nefna að í Vesturbyggð og í Tálknafjarðarhreppi hefur fólki fjölgað um 150 frá árinu 2010 og er það fyrst og fremst fiskeldi að þakka.

Því mega þeir sem mestu ráða ekki láta hroðvirknislega unna skýrslu Hafrannsóknarstofnunar sem nefnd hefur verið „áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi“ villa sér sýn enda töluðu flestir ef ekki allir flokkar um það í aðdraganda kosninga og einnig nú við upphaf þings að byggðamálin yrðu sett á oddinn.

Hér verða nefnd nokkur atriði sem verðfella áhættumat Hafrannsóknarstofnunar verulega.

1. Hugtakið áhættumat: Í skýrslunni eru með afar hæpnum forsendum reiknaðar út líkur á að fiskur komist upp í á. Þegar áhætta er reiknuð út þarf að taka inn í dæmið hvaða afleiðingar það hefur í för með sér en það er ekki gert í áhættumatinu. Þar með er titill skýrslunnar rangur og þá væntanlega niðurstaðan líka og hið svokallaða áhættumat er því ekki áhættumat og skýrslan þar með fallin um sjálfa sig. Þetta bendir til kunnáttuleysis þeirra sem að gerð skýrslunnar komu og líklegt verður að teljast að enginn af þeim sem komu að gerð skýrslunnar hafi hlotið tilsögn í gerð áhættumats.

Hvað afleiðingarnar varðar þá er það með ólíkindum að hafbeitarám sé gefið sérstakt verndargildi en árið 2004 var sjókvíaeldi leyft á Vestfjörðum og Austfjörðum vegna þess að á þessum svæðum voru árnar ekki taldar hafa sérstakt verndargildi. Þess má geta að í Noregi er bannað að sleppa fiski í ár til að rækta þær upp en þar í landi þykir það of mikið inngrip enda með því komið í veg fyrir náttúrulegt val.

2. Fjölgunarhæfni eldisfisks: Það hefur verið sýnt fram á að fjölgunarhæfni eldisfisks er ekki nærri þvi jafn góð og villts fisks sem leiðir til þess að líkurnar á að eldisfiskur fjölgi sér minnka.

3. Slysasleppingar: Í skýrslunni er gengið út frá því að eldisfiskur sleppi og þar er fullyrt að 0,8% af hverju framleiddu tonni sleppi. Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið þar sem ekkiert samband er á milli tonnafjölda og sleppinga. Nær væri að miða við fjölda seiða sem sett eru út. Með þessum rökum væri hægt að minnka sleppngum um 20% með því að slátra 4 kg vfiski í stað 5 kílóa fisks.

Þar að auki er talan 0,8% að hluta til miðuð við þá tíma í Noregi þegar ekki var búið að taka í notkun reglur um öruggan eldisbúnað en eftir að staðall um búnað í fiskeldi dró umtalsvert úr sleppingum og nú er svo komið að sleppingar eru nánast úr sögunni.

4. Ratvísi eldisfiska: Því er haldið fram í skýrslunni að 15% eldisfiska sem sleppa leiti upp í straumvötn. Þetta er u.þ.b. 20 föld ratvísi miðað við seiði sem veiðiréttarhafar hafa sleppt í árnar. Hver vegna Hafró kýs að nota þessa tölu er óskiljanlegt en augljóslega skekkir þetta niðurstöður reiknilíkansins sem margir kalla „áhættumat“.

5. Stærð fisk sem sleppur. Ekki er tekið tilllit til hennar en hún skiptir verulegu máli þar sem stærri fiskur fer síður upp í árnar

6. Geldfiskur: Miklu plássi skýrslunnar er eytt í umræðu um geldfisk. Sú umræða er algerlega ótímabær. Vonandi kemur að þeim tíma sem geldfiskur verður nothæfur í eldi en það geta liðið mörg ár þangað til það verður.

Vonandi ber stjórnmálamönnum landsins gæfa til að taka ákvarðanir sem verða Vestfirðingum, Austfirðingum og landsmönnum öllum til heilla og að þeir láti ekki blekkjast skýrslu Hafró sem virðist hafa verið með það að markmiði frá byrjun að draga sem mest úr sjókvíaeldi við Ísland og þar með missa af einu stærsta tækifæri sem boðist hefur til að efla fámenn byggðarlög á landsbyggðinni.

Vestfirðingar og Austfirðingar: Stöndum saman í baráttunni fyrir byggðinni okkar og leggjum okkar af mörkum til að fjölga atvinnutækifærum og efla okkar heimabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.